Innlent

Ræða um stofnun brugg­húss í sögu­frægu húsi á Djúpa­vogi

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Óvíst hefur verið hvers konar starfsemi verður í Faktorshúsi í langan tíma.
Óvíst hefur verið hvers konar starfsemi verður í Faktorshúsi í langan tíma. Múlaþing

Eigendur útgerðarinnar Goðaborgar vilja koma á fót brugghúsi og ölstofu í sögufrægu húsi á Djúpavogi. Húsið kallast Faktorshús og er hátt í tvö hundruð ára gamalt.

Goðaborg, sem er tíu ára gamalt fyrirtæki, rekur fimm báta, fiskvinnslu, kaupfélag og harðfiskverkun á Breiðdalsvík en eigendurnir eiga einnig hluta í brugghúsinu og ölstofunni Beljanda, einnig á Breiðdalsvík.

Að sögn Gauta Jóhannessonar, starfsmanns heimastjórnar Djúpavogs, er málið enn þá á umræðustigi.

„Það barst inn erindi þess efni að rekstraraðili hefði áhuga á að skoða þetta. Það var tekið vel í að taka upp viðræður um það,“ segir Gauti.

Bæði heimastjórnin og byggðarráð Múlaþings hafa lýst jákvæðni í garð verkefnisins.

„Félagið hefur verið að leita að hentugum stað á Djúpavogi til þess að setja upp lítið brugghús og ölstofu með það fyrir augum að auka á framleiðslugetu og aðgengi að markaði og einnig til þess að auka á þá afþreyingu sem í boði er á Djúpavogi fyrir gesti og ferðamenn og gefa þeim kost á að kaupa vöru framleidda á staðnum beint frá framleiðanda,“ segir í bókun heimastjórnar.

175 ára hús

Að sögn Gauta hefur nokkuð hægt gengið að finna Faktorshúsinu framtíðarhlutverk en sveitarfélagið auglýsti eftir samstarfsaðilum fyrir all nokkru síðan.

Faktorshúsið er 175 ára gamalt og unnið hefur verið að endurbótum á því. Eins og greint var frá í frétt Austurfréttar í maí síðastliðnum er allt að mestu frágengið utandyra en innandyra hafa endurbætur verið flóknari.

Það stendur við hlið Löngubúðar, en þetta eru tvö elstu húsin á Djúpavogi. Langabúð var byggð fyrir danska verslunarfélagið Ørum & Wulff en Faktorshúsið fyrir verslunarstjórann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×