Fótbolti

Chelsea horfir til Banda­ríkjanna og gæti slegið enn eitt fé­lags­skipta­metið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Djordje Petrovic er talinn líklegt skotmark Chelsea áður en félagsskiptaglugginn lokar.
Djordje Petrovic er talinn líklegt skotmark Chelsea áður en félagsskiptaglugginn lokar. Fred Kfoury III/Icon Sportswire via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur farið mikinn á félagsskiptamarkaðnum undanfarin misseri og félagið hefur eytt hundruð milljónum punda. Nú horfir félagið til Bandaríkjanna í leit að markverði.

Chelsea er að skoða markmannsmálin eftir að Edouard Mendy var seldur til Sádi-Arabíu og Kepa Arrizabalaga gekk til liðs við Real Madrid á láni. Lundúnaliðið fékk Robert Sanchez frá Brighton, en Mauricio Pochettino, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea, er sagður vilja bæta öðrum markverði við áður en félagsskiptaglugginn lokar í lok ágústmánaðar.

Forráðamenn Chelsea eru því sagðir horfa til Bandaríkjanna á Djordje Petrovic, markvörð New England Revolution.

Það er The Daily Express sem greinir frá áhuga Chelsea á þessum 23 ára landsliðsmarkverði Serbíu. Þar segir að það myndi kosta Chelsea 24 milljónir punda [fjóra milljarða króna] að kaupa Petrovic sem myndi gera hann að dýrasta leikmanni sem keyptur hefur verið frá MLS-deildinni frá upphafi.

Miguel Almiron varð árið 2019 dýrasti leikmaðurinn sem keyptur hefur verið frá MLS-deildinni þegar hann var keyptur til Newcastle frá Atlanta United á 20,5 milljónir punda.

Petrovic er samningsbundinn New England Revolution til ársins 2025 og samningur hans felur í sér möguleika á eins árs framlengingu. Hann gekk til liðs við félagið á síðasta ári til að fylla í skarð Matt Turner sem gekk í raðir Arsenal og hefur leikið 48 leiki í MLS-deildinni þar sem hann hefur 15 sinnum haldið hreinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×