Fótbolti

Michael Jordan hjálpar Eyjamönnum í fallbaráttunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Michael Jordan Nkololo í leik með Riga FC í Lettlandi árið 2020.
Michael Jordan Nkololo í leik með Riga FC í Lettlandi árið 2020. Riga FC

ÍBV hefur samið við Michael Jordan Nkololo um að leika með liðinu í Bestu-deild karla. Jordan er þrítugur framherji sem kemur til með að hjálpa Eyjamönnum í fallbaráttunni sem framundan er.

Jordan er fæddur í Frakklandi, en á að baki tólf landsleiki fyrir Lýðstjórnarlýðveldið Kongó. Hann lék síðast fyrir Kyzylzhar í Kasakstan.

Á ferlinum hefur Jordan einnig leikið með liðum í Litháen, Úkraínu, Lettlandi, Króatíu, Rúmeníu og Frakklandi.

Jordan getur bæði leyst stöðu framherja og sóknarsinnaðs miðjumanns og kemur til ÍBV þegar liðið situr í tíunda sæti Bestu-deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið þegar þrjár umferðir eru eftir áður en deildinni verður skipt upp í efri og neðri hluta. Hann fær leikheimild á morgun og getur því leikið með ÍBV þegar liðið tekur á móti Fylki næstkomandi sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×