Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir flokkinn nú vinna að lagabreytingartillögu sem miðar að því að fella úr gildi ákvæði 33. greinar laga um útlendinga þar sem kveðið er á um niðurfellingu réttinda við endanlega synjun um alþjóðlega vernd á landinu.
53 hefur verið tilkynnt um niðurfellingu þjónustu á Íslandi og eru um 30 þeirra að öllum líkindum heimilis- og réttindalaus á Íslandi.
„Þetta er það sem við vorum að reyna að benda þinginu á, dag eftir dag og nótt eftir nótt, að myndi gerast. Það var ekki að ástæðulausu að við eyddum svona mikilli orku í að reyna að stöðva þetta mál. Því við vissum að þetta myndi raungerast svona.“
Þórhildur segir að með þessu sé verið að búa til nýja neyð á Íslandi og að Píratar óski þess að þeir hefðu fengið betri stuðning á þinginu þegar þau mótmæltu þessum lagabreytingum síðasta vor.
Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sögðu bæði í gær að þau myndu ekki taka við fólkinu án samtals. Þórhildur segir að Píratar hafi varað við þessu.
„Ríkisstjórnin verður að taka ábyrgð á sínum eigin mistökum og draga þetta ógeðslega ákvæði til baka. Breyta lögunum og veita þjónustu aftur,“ segir Þórhildur og að það gangi ekki að það sé verið að búa til nýjan hóp fólks hér á landi sem ekki má vinna, á ekki rétt á búsetu og hefur aðeins á götuna að leita.
Þing kemur þó ekki saman fyrr en eftir tæplega mánuð en Þórhildur telur rétt að þangað til þá verði beitingu ákvæðisins hætt.
„Það á að fella svona ómannúðleg lög úr gildi. Þau stangast á við mannréttindasamninga sem við erum aðilar að. Það er ekki ásættanlegt að við séum með fólk á götunni hérna,“ segir Þórhildur Sunna og að það sýni ákveðna veruleikafirringu í stjórnarsamstarfinu að telja að sveitarfélögin muni taka við þessu fólki án þess að þó ræða það við sveitarfélögin.
„Það er mjög sorglegt fyrir mannréttindi á Íslandi og okkar samfélagsgerð að þetta sé staðan núna en við tökum því sem er og förum að berjast fyrir því að fella þetta hræðilega ákvæði úr gildi,“ segir Þórhildur og að flokkurinn sé byrjaður að vinna að því.