Lífið

Uppselt í hálfmaraþon og landsmenn í áheitahug

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það er alltaf stuð í Reykjavíkurmaraþoninu.
Það er alltaf stuð í Reykjavíkurmaraþoninu.

Skráning í Reykjavíkurmaraþonið sem fer fram á laugardaginn kemur, hefur farið fram úr björtustu vonum mótshaldara. Uppselt er í hálfmaraþonið og örfáir miðar eftir í heilmaraþonið, 10 kílómetra hlaupið og Skemmtiskokkið.

Mótshaldarar áætla að uppselt verði í allar vegalengdir þegar fyrstu hlauparar verða ræstir af stað að morgni laugardags.

Skráning í hálfmaraþonið er 30 prósent meiri en í fyrra og skráning í aðrar vegalengdir um 25 prósent meiri. Skipuleggjendur segjast ekki hafa búist við að viðburðurinn myndi ná sér jafn fljótt á strik eftir faraldurinn eins og raun ber vitni, en fagna viðtökunum um leið.

„Það seldist snögglega upp í hálfmaraþonið um helgina, það gerðist svo hratt að ekki náðist að láta vita að það væri að verða uppselt. Við bættum við 250 miðum á sunnudag sem kláruðust um leið og því óhætt að segja að mikil eftirsókn sé í hálfmaraþon. Hægt er að gera nafnbreytingar á miðum fram að hlaupinu, svo þeir sem sjá sér ekki fært að koma geta leyft öðrum áhugasömum hlaupurum að nýta miðann“ segir Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir viðburðarstjóri Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka í tilkynningu.

Hlauparar hafa þegar safnað um 80 milljónum króna, sem er ríflega 25 milljónum meira en á sama tíma í fyrra. Hlaupastyrkur er stærsta einstaka söfnun flestra góðgerðarfélaga á árinu og standa vonir til að söfnunin verði meiri í ár en í hlaupinu 2022.

Reykjavíkurmaraþonið hefst í Sóleyjargötu og endar í Lækjargötu líkt og í fyrra. Fyrstu hlaupararnir verða ræstir af stað klukkan 8:40 og þeir síðustu klukkan 12, en allar nánari upplýsingar má nálgast á vef Reykjavíkurmaraþonsins.


Tengdar fréttir

Vinnur hvert afrekið á fætur öðru fjörutíu kílóum léttari

Jóna Björk Sigurjónsdóttir 42 ára hjúkrunarfræðingur hefur undanfarin ár hlaupið Laugaveginn, orðið Landvættur og skráð sig í krefjandi nám. Allt eftir að hún ákvað að fara í magaermisaðgerð og byrja að hreyfa sig. Hún segir fitufordóma víða í samfélaginu þótt ljóst sé að það sé ekki hollt að vera í ofþyngd.

„Þú þarft endurhæfingu eftir svona upplifun“

„Fyrir mér voru þetta mikilvæg fyrstu skref. Það sem skipti mig máli var að þarna fékk ég staðfestingu á minni upplifun. Það var svo gott að koma þarna og læra inn á þessi skref og öll þessi hugtök,“ segir Steinunn Þórðardóttir. Hún nýtti sér þjónustu Kvennaathvarfsins fyrir nokkrum árum og ber því vel söguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×