Innlent

Verkið hófst ekki nógu snemma til að tíma­lína stæðist

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Framkvæmdum á Laugavegi við Hlemm átti að vera lokið um síðustu áramót. Svona er staðan í dag.
Framkvæmdum á Laugavegi við Hlemm átti að vera lokið um síðustu áramót. Svona er staðan í dag. Vísir/Vilhelm

Átta mánaða tafir á fram­kvæmdum við Hlemm skýrast af því að verkið hófst ekki nógu snemma til þess að tíma­lína stæðist og þá var ekkert gert í fjóra mánuði í vetur vegna frosts í jörðu. Rauðar­ár­stígur frá Bríetar­túni að Hlemmi verður opnaður í lok ágúst. Þetta kemur fram í svari Reykja­víkur­borgar við fyrir­spurn Vísis.

Fram­kvæmdir á Lauga­vegi við Hlemm hófust í septem­ber í fyrra og var gert ráð fyrir að þeim myndi ljúka síðustu ára­mót. Kaflinn sem um ræðir liggur frá Mat­höllinni á Hlemmi og að Snorra­braut og er um að ræða viða­miklar breytingar á svæðinu.

Í svörum frá Reykja­víkur­borg vegna fram­kvæmdanna segir að lagningu frá­veitu hafi að mestu lokið síðast­liðin ára­mót. Segir í svörunum að ekki sé ráð­legt að eiga mikið við lagnir yfir harðasta vetrar­tímann.

„Nefna má tvennt í þessu sam­bandi: 1. Verkið hófst ekki nægi­lega snemma til að á­ætluð tíma­lína stæðist að fullu. Það hófst í septem­ber en þá var allt til reiðu og búið að leysa og finna lausnir fyrir gangandi, rekstrar­aðila og strætó sem stóðust allar öryggis­kröfur. 2. Veturinn var harður og jörð fraus í fjóra mánuði á svæðinu, ekki var hægt að hefja aftur vinnu fyrr en mánaða­mótin mars-apríl.“

Ekki var unnið á svæðinu vegna frosthörku í fjóra mánuði. Vísir/Vilhelm

Alltaf breytingar á á­ætlunum í svo viða­miklu verki

Í svörunum segir enn­fremur að verkið í heild hafi gengið vel. Verkinu á Lauga­vegi hafi verið skipt upp, þannig að gatan er kláruð fyrst, næst tekin gang­stétt öðru megin og síðan hinu­megin.

Rauðar­ár­stígur frá Bríetar­túni að Hlemmi verður opnaður í lok ágúst, að því er segir í svörunum. Snyrting, eins og því er lýst, verður á öllum þáttum í septem­ber. Þá er hönnun á næstu á­föngum fyrir Hlemm sögð í góðum gír.

„Í svona viða­miklu verki verða alltaf ein­hverjar breytingar á á­ætlun. Í þessu til­fell þurfti að breyta lýsingu, ekki var hægt að hafa hana hangandi, þannig að búið er að smíða ljósa­staura. Á­ætluð tíma­lína á fram­kvæmdum breyttist en verk­takinn hefur staðið sig vel og fram­kvæmda­aðilar leyst öll verk­efni sem hafa komið upp.“

Sérstakur stálstrúktur mun einkenna svæðið eftir að framkvæmdum lýkur.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×