Sprengingin er rædd á íbúahópi hverfisins á samfélagsmiðlinum Facebook. Þar lýsa íbúar því að sprengingin hafi verið afar hávær og heyrst vel um hverfið.
Þar segist einn íbúa hafa séð mikinn moldar strók upp við námur í átt að Krýsuvík og líklegt að þangað megi rekja sprenginguna.
Einn íbúa sem Vísir ræddi við sagðist hafa setið í sófanum þegar sprengingin varð. Hann sagði að sér hefði verið mikið brugðið, ekki síst á eldgosatímum líkt og þessum þar sem Vallahverfi hefði oft verið nefnt í sömu andrá og möguleg gos á Reykjanesskaga.
Allajafna hafi íbúar verið látnir vita fyrirfram af sprengingum við námurnar í Krýsuvík, en ekki í þetta skiptið. Þó nokkur fjöldi lýsir því á íbúahópnum að hann hafi orðið var við sprenginguna.
Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu barst engin tilkynning vegna sprengingarinnar þangað. Ekki hefur náðst í Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar vegna málsins.