Innlent

Bæði ríki græði á um­deildri Norður­ljósa­rann­sóknar­mið­stöð

Bjarki Sigurðsson skrifar
He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi.
He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi. Vísir/Arnar

Sendiherra Kína á Íslandi segir samstarf kína og Íslands á sviði jarðhita hafa borgað sig stórkostlega fyrir bæði lönd. Þá segir hann rannsóknarmiðstöð Norðurljósa sem reist var í Þingeyjarsýslu skila árangri til Íslendinga sem Kínverja. 

He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, bauð í dag íslenskum fjölmiðlum í hádegismat þar sem hann fór yfir samskipti Íslands og Kína það sem af er ári. Fjallaði hann meðal annars um verkefni sem kínversk stjórnvöld hafa unnið að á Íslandi og með Íslendingum.

Þar á meðal er stórt jarðhitaverkefni sem hefur skilað því að 500 þúsund kínversk heimili eru hituð upp með jarðvarma. Sendiherrann segist eiga von á enn frekara samstarfi á því sviði.

„Ég tel að í samstarfsverkefninu felist einnig rannsóknir á orkuvinnslugetu á sviði jarðhitamála, ekki bara til hitunar. Arctic Green er í viðræðum við kínverska aðila um málið,“ segir Rulong. 

Fjallað hefur verið um áhyggjur af því að rannsóknarmiðstöð Kínverja um norðurljós að Kárhóli í Þingeyjarsýslu sé mögulega nýtt til fjarskiptanjósna.

Sendiherrann segir að það eigi ekki að hlusta á getgátur heldur að skoða í raun og veru hvað er í gangi.

„Þetta er opinn vettvangur til alþjóðlegrar samvinnu um rannsóknir á lofthjúpnum og öll lönd heims munu njóta góðs af því. Fjölmiðlar hafa fjallað um ýmsar kenningar í þessu sambandi. Ég tel að við þurfum að skilja þetta mál frá sjónarhóli þjóðapólitísks ástands í heiminum í dag. Ég vil því ekki tjá mig sérstaklega um verkefnið. Verkefnið kemur bæði Kína og Íslandi ásamt öðrum ríkjum til góða,“ segir Rulong.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×