Innlent

Loka götu­bútum í stutta stund meðan á dreifingu stendur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Nokkrar svona eru á leið til íbúa í miðborg Reykjavíkur.
Nokkrar svona eru á leið til íbúa í miðborg Reykjavíkur. reykjavíkurborg

Loka þarf stöku götubútum í stutta stund í miðborg Reykjavíkur í dag á meðan dreifing á nýju sorptunnunum stendur yfir vegna þrengsla. Verkefnastjóri biður íbúa um að sýna biðlund rétt á meðan tunnuskiptum stendur.

Dreifing á nýju sorptunnunum hefur undanfarið staðið yfir á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og nú er röðin komin að íbúum í miðborg Reykjavíkur. Fréttastofa náði tali af Friðriki Gunnarssyni, verkefnastjóra hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, þegar hann var í miðju verki.

„Þetta gengur fram úr vonum. Við erum á áætlun og erum að þjónusta um 650 heimili á dag þannig þetta er mikil keyrsla en gengur alveg ofboðslega vel.“

Vonar að íbúar sýni biðlund

Stórir sendibílar sem ferja tunnurnar í hús eiga erfitt með að mæta bílum í þeim þröngu götum sem einkenna miðborgina.

„Á þeim götum þar sem þrengslin eru mest, þar verðum við að loka stöku götubútum í kannski hálftíma til klukkutíma rétt á meðan verki stendur, en það er alls ekki svo að við séum að fara að loka heilu götunum. Við vonum að íbúar taki þátt í þessu með okkur og sýni biðlund á meðan við komum nýju tunnunum heim í hús.“

Á það við um Grettisgötu, Njálsgötu og aðrar þröngar og langar götur í miðbænum. Ef áætlanir ganga eftir ættu öll heimili í miðborg Reykjavíkur að vera komin með nýju tunnurnar í lok næstu viku.

„Og þegar það er búið þá förum við í Hlíðarnar.“ 

Er þá verkinu lokið? „Nei, verkinu lýkur í Háaleiti- og Bústaðahverfi í september.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×