Fótbolti

Sjáðu mörkin og rauða spjaldið úr Eyjum í gær

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sindri Snær Magnússon fékk beint rautt spjald á 64. mínútu.
Sindri Snær Magnússon fékk beint rautt spjald á 64. mínútu. Vísir/Stöð 2 Sport

ÍBV og Keflavík gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í Bestu-deild karla í knattspyrnu í gær. Keflvíkingar léku seinasta hálftíman manni færri, en heimamenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn.

Hermann Þór Ragnarsson braut ísinn fyrir Eyjamenn á 43. mínútu eftir góðan undirbúning Olivers Heiðarssonar. Oliver átti þá sprett á hægri kantinum áður en hann renndi boltanum á Hermann Þór sem skoraði af stuttu færi.

Keflvíkingar voru hins vegar ekkert að slóra eftir að síðari hálfleikurinn hófst því Sami Kamel jafnaði metin fyrir gestina strax á 48. mínútu með hnitmiðuðu skoti.

Klippa: Mörkin úr leik ÍBV og Keflavíkur

Gestirnir í botnliði Keflavíkur þurftu þó að leika seinasta hálftíma leiksins manni færri eftir að Sindri Snær Magnússon fékk beint rautt spjald á 64. mínútu. Sindri og Tómas Bent Magnússon lágu báðir í grasinu og eftir að dómarinn flautaði sparkaði Sindri í andlitið á Tómasi Bent. Boltinn var hjá hausnum á Tómasi en þetta var afar heimskuleg tilraun hjá Sindra sem fékk verðskuldað beint rautt spjald.

Klippa: Sindri fékk rautt í Eyjum

Þrátt fyrir að vera manni fleiri tóks Eyjamönnum ekki að nýta sér liðsmuninn og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli. ÍBV situr nú í sjöunda sæti með 17 stig eftir 15 leiki, en Keflvíkingar eru enn á botninum, nú með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×