Innlent

„Við höfum nei­kvæð á­hrif á sam­fé­lög, um­hverfi og efna­hag annarra landa“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, segir stjórnvöld meðal annars þurfa að setja fram skýra framtíðarsýn og fjármagnaða aðgerðaráætlun. 
Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, segir stjórnvöld meðal annars þurfa að setja fram skýra framtíðarsýn og fjármagnaða aðgerðaráætlun.  Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Kolefnisspor Íslands er með því hæsta í heimi þegar allar innfluttar vörur eru teknar með inn í reikninginn auk þess sem Ísland er með einna neikvæðust smitáhrif meðal þeirra 163 ríkja þar sem þau hafa verið metin samkvæmt nýrri skýrslu. Forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands segir neyslu Íslendinga og innflutning hafa einna mest áhrif.

Fræðafólk við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands gerði úttekt á smitáhrifum sem kemur fyrir í skýrslu forsætisnáðuneytisins sem fjallar um stöðu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á Íslandi. Íslensk stjórnvöld hafa skilað henni inn til Sameinuðu þjóðanna og verður hún formlega kynnt á ráðherrafundi í New York á þriðjudag. 

Áhrif á getu annarra ríkja

Með smitáhrifum er átt við hvernig aðgerðir innan hvers ríkis hafa neikvæð eða jákvæð áhrif á getu annarra ríkja til að ná heimsmarkmiðunum. Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands, segir neyslu og innflutning hafa mikil áhrif. 

„Helstu niðurstöðurnar eru þær að við Íslendingar við stöndum okkur illa þegar það kemur að þessum svokölluðu neikvæðu smitáhrifum á önnur ríki eða svæði. Einnig að kolefnisspor okkar er með því hæsta í heiminum þegar allar innfluttar vörur eru teknar með inn í reikninginn. Þá erum við að tala um af því við erum svo ríkt og neyslufrekt samfélag að þá höfum við neikvæð áhrif á samfélög, umhverfi og efnahag annarra landa sérstaklega með innflutningi okkar og neyslu,“ segir Hafdís Hanna. 

Þurfi skýra framtíðarsýn

Ísland sé í 158 sæti meðal þeirra 163 landa þar sem smitáhrifin hafa verið metin. „Við erum mjög neðarlega á þessum lista og á neðsta sæti af Norðurlöndunum,“ segir hún. Það sé í raun alveg öfugt við það að Ísland sé ofarlega þegar kemur að því að innleiða heimsmarkiðin heima fyrir. 

„Við stöndum okkur vel þegar kemur að menntun, heilbrigðismálum og ýmsu öðru sem varðar heimsmarkmiðunum hérna heima fyrir en svo höfum við slæm áhrif á önnur lönd með okkar neyslu og innflutningi. Þar stöndum við okkur illa,“ segir útskýrir Hafdís Hanna. 

Íslensk stjórnvöld þurfi meðal annars að setja fram skýra framtíðarsýn, markmið og fjármagnaða aðgerðaráætlun. Auka rannsóknir um smitáhrif, hvar þau sé að finna og afla frekari gagna. Þá þurfi að auka hringrásarhagkerfið með því að innleiða græna hvata.


Tengdar fréttir

Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun og alþjóðleg smitáhrif Íslands

Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum.

Sjálfbærniskýrslan 2023: Verðlaunin staðfesta hvað Marel er að gera í sjálfbærnimálum

„Við erum mjög hreykin af þessum verðlaunum sem staðfesta hvað við erum að gera í sjálfbærnimálum. Það hefur líka sýnt sig að það er leitni á milli þess að standa sig vel í sjálfbærnimálum og góðs reksturs,“ segir Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel og formaður Nordic CEOs for a Sustainable Future, en rétt í þessu var tilkynnt að Marel er verðlaunahafi Sjálfbærniskýrslu ársins 2023.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×