Eldgosið við Litla-Hrút hófst með krafti í gær klukkan 16:40 en síðan þá hefur verulega dregið úr krafti gossins og hraunflæði minnkað. Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðingur á veðurstofunni segir gosið malla með nokkuð lotukenndum hætti.
„Í morgun var smá strókavirkni en svo datt hún alveg niður í smá tíma, svo hófst hún aftur. Eins og er virðist maður sjá út frá vefmyndavélum að svæðið norður af Litla-Hrút sé rólegra, ekki eins mikil strókavirkni og sprunguvirkni og var.“
Hér má fylgjast með gosinu í beinni útsendingu frá vefmyndavél Vísis:
Gosóróinn hafi verið í hámarki um klukkan níu í gærkvöldi en lækkað hægt og rólega um miðnætti og segir Bjarki óróann enn fara lækkandi, sem sé eðlilegt.
„Þetta byrjar yfirleitt með krafti og svo minnkar virkni með tímanum þegar gosið er að ná jafnvægi og það getur verið það sem er að gerast núna. Þetta er eins og þegar þú hristir gosflösku eða kampavín, þá kemur rosa mikið út fyrst en svo minnkar flæðið með tímanum en heldur samt áfram að renna úr flöskunni og það er bara spurning hversu mikið er í gangi þarna niðri og hversu mikið færist upp í gegnum gígjana. En eins og núna þá virðist minni gangur í gosinu en fyrr, en tíminn einn leiðir í ljós hvað verður.“