Lífið

Varð við bón að­dáanda og kýldi hann

Máni Snær Þorláksson skrifar
Machine Gun Kelly varð við ósk aðdáandans og kýldi hann laust í andlitið.
Machine Gun Kelly varð við ósk aðdáandans og kýldi hann laust í andlitið. EPA/Peter Foley

Tónlistarmaðurinn Machine Gun Kelly kýldi aðdáanda sinn í andlitið á tónleikum á dögunum er hann var í miðju lagi. Það var þó ekki illa meint þar sem aðdáandinn bað hann um að kýla sig og var virkilega sáttur eftir höggið.

Aðdáandinn sem um ræðir hélt á skilti sem á stóð að hann hafi komið frá Mexíkó til þess eins að láta Machine Gun Kelly kýla sig í andlitið. „Af hverju viltu svona mikið að ég kýli þig í andlitið?“ spurði tónlistarmaðurinn aðdáanda sinn.

„Ég elska þig,“ sagði aðdáandinn við því en Machine Gun Kelly var þó efins: „Ég er með hringi á mér gaur, þetta verður vont, ég veit ekki með þetta. Ég tapa bara á þessu. Ég veit ekki hvort ég sé að fara að gera þetta, ég skal hugsa málið.“

Það er þó ljóst að Machine Gun Kelly hefur ákveðið að lokum að verða við ósk aðdáandans. Síðar á tónleikunum, í miðju lagi, gekk hann til aðdáandans og kýldi hann í andlitið með vinstri hendi. Hann passaði sig þó á því að sýna myndavélunum skilti aðdáandans áður en hann veitti honum höggið.

„Ég elska þig,“ kallaði Machine Gun Kelly til aðdáandans eftir að hann fór aftur á sviðið eftir að hafa kýlt hann með vinstri hendi sinni. Atvikið átti sér stað á Werchter tónlistarhátíðinni í Belgíu. 


Tengdar fréttir

Megan Fox og Machine Gun Kelly saman á ný

Hollywood-leikkonan Megan Fox og tónlistarmaðurinn Machine Gun Kelly virðast hafa kveikt í glæðum sambands síns ef marka má myndir sem náðust af parinu í fríi á Hawaii. Síðustu mánuði hafa gengið orðrómar um sambandsslit þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×