Innlent

Lengsta regn­boga­gata landsins á Akra­nesi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Regnbogagatan á Akranesi setur litríkan svip á bæinn.
Regnbogagatan á Akranesi setur litríkan svip á bæinn. Vísir/Vilhelm

Lengsta regnbogagata landsins var máluð í miðbæ Akraness í gær. Forseti hinsegin Vesturlands segir mikilvægt sem aldrei fyrr að fagna fjölbreytileikanum.

Helgina 20.-23. júlí fer fram Hinseginhátíð Vesturlands sem að þessu sinni verður haldin á Akranesi. Af því tilefni var gata í miðbænum máluð í öllum regnbogans litum. Fulltrúar frá fyrirtækjum og félagasamtökum sem styðja við verkefnið  hófu málningarvinnuna í veðurblíðunni á Akranesi í gær.

Regnboginn nær frá Akratorgi að Merkigerði, alls 400 metra. Það gerir götuna að lengstu regnbogagötu landsins. 

Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, forseti hinsegin Vesturlands, segir sýnileikann gríðarlega mikilvægan.

„Það er erfitt að koma út og finnast maður öðruvísi. Við þurfum að vera sýnileg til að fræða alla um hinseginleikann í heild, þannig að við getum fengið að vera þau sem við erum og líða vel í eigin skinni.”

Guðrún Steinunn Guðbrandsdóttir, forseti hinsegin Vesturlands, er ánægð með nýju regnbogagötuna og vonar að hún sé komin til að vera. Vísir/Vilhelm

Því miður hafi bakslag verið í baráttu hinsegin fólks síðustu ár. Guðrún segir að því sé enn mikilvægara að vera sýnileg og halda baráttunni áfram. 

Vonandi komin til að vera

Hvernig hafa bæjarbúar brugðist við þessu framtaki, eru allir jákvæðir?

„Já, rosalega vel. Við erum rosalega glöð og hlökkum mjög mikið til að halda hátíðina okkar. Við fáum bara góð viðbrögð.”

Enn er talsvert í hátíðina en Guðrún hefur ekki áhyggjur af því að fáninn muni eyðast upp þangað til.

„Þetta er rosalega vel málað og verður vonandi lengur en hátíðin. Vonandi til framtíðar.”

Regnbogagata á AkranesiVísir/Vilhelm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×