Innlent

Fólk á suð­vestur­horninu má búa sig undir reglu­lega jarð­skjálfta

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Þorvaldur segir landrisið geta bent til þess að Reykjanesskaginn sé eitt eldstöðvakerfi en ekki nokkur eins og áður hefur verið talið.
Þorvaldur segir landrisið geta bent til þess að Reykjanesskaginn sé eitt eldstöðvakerfi en ekki nokkur eins og áður hefur verið talið. Vísir/Arnar Halldórsson

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að landrisið í Reykjanesskaga gæti breytt sýn fólks á eldstöðvakerfin. Sífellt styttist í næsta gos og íbúar megi búa sig undir að búa við jarðskjálfta.

Þorvaldur var í viðtali við útvarpsþáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Tilefnið er það landris sem sést hefur á Reykjanesskaganum síðan í apríl, upp á 2,5 sentimetra.

Að sögn Þorvaldar verður landris þegar eitthvað efni, til dæmis kvika, tekur sér pláss undir yfirborðinu og ýtir jarðlögunum fyrir ofan sig upp. Hann segir athyglisvert að landris skuli mælast á öllum Reykjanesskaganum.

„Þetta þýðir að við þurfum að horfa aðeins öðruvísi á þessa virkni sem er í gangi á Reykjanesskaganum en við höfum gert hingað til,“ segir Þorvaldur. „Þetta séu kannski ekki einstök eldstöðvakerfi eins og lagt hefur verið til heldur eitt eldstöðvakerfi. Það sé verið að fylla á tankinn í þessu eldstöðvakerfi sem nær yfir endilangan Reykjanesskagann.“

Þessa sé ein hugsanleg sviðsmynd og mikilvægt sé að læra um þetta. Á suðvesturhorninu búi flestir landsmenn og þar eru mikilvægir innviðir staðsettir.

„Eldvirkni á Reykjanesskaganum getur haft mjög víðtæk á okkar samfélag. Þannig að það er mjög brýnt að við fylgjumst með og lærum um þessa eldvirkni sem er þarna,“ segir Þorvaldur.

Getur hrunið úr fjöllum

Aðspurður um jarðskjálfta segir Þorvaldur að Reykjanesskaginn sé kominn inn í eldgosatímabil eftir tæplega 800 ára hlé. Þetta þýðir að Grindvíkingar og aðrir íbúar á Reykjanesskaganum og stór höfuðborgarsvæðinu megi búa sig undir að upp komi öflugar jarðskjálftahrinur eins og undanfarin ár.

Núna hafi hún verið mest á svæðinu frá Bláfjöllum að Reykjanesi, það er hælnum á Reykjanesskaganum. Hrun getur orðið í fjöllum á þessu svæði og fólk verði að hafa það í huga þegar það gengur á fjöll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×