Innlent

Maðurinn sem lést var bú­settur í Vest­manna­eyjum

Árni Sæberg skrifar
Töluvert viðbragð er við höfnina.
Töluvert viðbragð er við höfnina. Aðsend

Karlmaður á áttræðisaldri lést í dag eftir að hafa fallið úr Ystakletti í Vestmannaeyjum.

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn þegar honum var komið í land. Hann segir að maðurinn hafi verið á áttræðisaldri og vitað sé hver hann var. 

Hann segir að tildrög slyssins séu til rannsóknar. Þá segir hann að viðbragð hafi verið skjótt og björgunarskip fljótt á vettvang. Lík mannsins sé komið á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og öllum aðgerðum lokið.

Í tilkynningu frá lögeglunni segir að maðurinn hafi verið búsettur í Vestmannaeyjum og hann hafi verið með hópi manna við smölun í klettinum þegar óhappið varð. Félagar úr Björgunarfélagi Vestmannaeyja hafi haldið þegar á vettvang og náðu manninum úr sjónum en hann reyndist vera látinn.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að björgunarskipið Þór hafi verið kallað út klukkan 13:40 vegna slyssins.

Ystiklettur er austasti klettur norðurklettanna í Vestmannaeyjum, en hann stendur norður af Víkinni þar sem innsiglingin í höfnina er.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×