Lífið

Giftist fyrrverandi bestu vinkonu dóttur sinnar

Máni Snær Þorláksson skrifar
Richard og Lucie giftu sig um helgina.
Richard og Lucie giftu sig um helgina. Instagram

Richard Keys, fyrrverandi fjölmiðlamaður á Sky Sports, og Lucie Rose gengu í það heilaga um helgina. Fyrrverandi eiginkona Richard skildi við hann árið 2016 eftir að upp komst um framhjáhald hans með bestu vinkonu dóttur hans, Lucie Rose.

Richard og Julia Keys, fyrrverandi eiginkona hans, höfðu verið gift í þrjátíu og sex ár þegar upp komst um framhjáhaldið. Julia sagði framhjáhaldið hafa eyðilagt líf sitt en hún var að berjast við krabbamein þegar það átti sér stað. 

Hún segir framhjáhaldið einnig hafa haft slæm áhrif á dóttur þeirra, leikkonuna Jemma Keys, sem barðist við alkóhólisma og þunglyndi eftir það.

Jemma komst til að mynda í kast við lögin fyrir óvægin textaskilaboð sem hún sendi á Lucie, sem hafði verið besta vinkona hennar áður en það komst í ljós að hún hafði verið sú sem Richard hélt framhjá eiginkonu sinni með. Saksóknarar ákváðu þó að láta kæru á hendur henni fyrir skilaboðin niður falla. 

Nú eru Richard og Lucie búin að gifta sig og var Jemma hvergi sjáanleg í athöfninni, sem fór fram utandyra. Samkvæmt Independent fór athöfnin fram í grennd við bæinn Brixham, á suðurhluta Bretlands.

Nokkur aldursmunur er á nýgiftu hjónunum, Richard er 66 ára gamall og Lucie er 35 ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×