Fótbolti

Messi spilaði tvo góð­gerða­leiki á tveimur dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi hefur verið upptekinn í heimsókn sinni til Argentínu.
Lionel Messi hefur verið upptekinn í heimsókn sinni til Argentínu. Getty/Lintao Zhang

Lionel Messi er ekki enn kominn til nýja félagsins í Bandaríkjunum því hann hefur verið upptekinn við að heiðra gamla liðsfélaga í heimalandi sínu.

Messi spilaði þannig tvo kveðjuleiki kunna kappa um helgina.

Fyrst spilaði hann í kveðjuleik Maxi Rodriguez á sjálfan afmælisdaginn sinn en leikurinn fór fram í heimaborg Messi sem er Rosario. Messi skoraði þrennu í leiknum.

Daginn eftir spilaði Messi í kveðjuleik Juan Roman Riquelme en leikurinn fór fram á La Bombonera, heimavelli Boca Juniors. Messi skoraði líka í þeim leik.

Báðir eru leikmennirnir kunnar stjörnur úr argentínska landsliðinu. Maxi Rodriguez spilaði 57 landsleiki frá 2003 til 2014 og skoraði í þeim 16 mörk. Riquelme spilaði 51 landsleik frá 1997 til 2008 og skoraði í þeim 17 mörk.

Messi mun síðan spila sinn fyrsta leik með Inter Miami á næstunni en liðið þarf svo sannarlega á hjálp hans að halda enda búið að tapa sjö leikjum í röð í MLS-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×