Innlent

Skip­stjóri faldi mynda­vél inni á klósetti Ís­lendinga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögregla handtók manninn og verður réttað yfir honum þann 6. desember næstkomandi.
Lögregla handtók manninn og verður réttað yfir honum þann 6. desember næstkomandi. EPA/SEBASTIEN NOGIER

Ís­lenskur hópur í fríi í Cannes í Frakk­landi var á siglingu við borgina þarsíðustu helgi þegar einn úr hópnum tók eftir mynda­vél sem falin var inni í vegg á klósetti í bátnum þar sem þau höfðu fata­skipti. Málið var til­kynnt til lög­reglu sem hand­tók skip­stjórann við komu til hafnar.

Franski miðillinn Nice Matin gerir málinu skil en sam­kvæmt heimildum Vísis er um að ræða Íslendinga sem staddir voru í fríi í Cannes. Maðurinn hafði myndað sex ein­stak­linga í hópnum við fata­skipti þegar einn meðlima hans upp­götvaði mynda­vélina. 

Í um­fjöllun Nice Matin kemur fram að um hafi verið að ræða tuttugu manna hóp. Hópurinn hafi á­kveðið að gera sér glaðan dag og leigt stóran segl­bát og haldið í dags­ferð. Þá hafi ung kona í hópnum upp­götvað síma skip­stjórans sem falinn hafi verið í vegg fyrir ofan klósettið.

Hópurinn gerði lög­reglu við­vart sem beið bátsins þegar hann kom aftur til hafnar í Cannes. Þar lagði hún hald á síma mannsins, að því er fram kemur í um­fjöllun franska miðilsins.

Fundust nokkur mynd­bönd í símanum af ungum konum á þrí­tugs­aldri sem hann hafði myndað á meðan þær höfðu fata­skipti. Maðurinn neitar sök og ber fyrir sig að hann hafi sett upp símann í rýminu til þess að fylgjast með því hvort gestir bátsins neyti eitur­lyfja. Skip­stjóranum hefur verið sleppt en ber að mæta fyrir dóm þann 6. desember næst­komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×