Alls óvíst er hvort svona hátíðlegt verði um að litast í Gullhömrum þegar aðalmeðferð í alvarlegu sakamáli fer fram.Facebook/Gullhamrar
Aðalmeðferð í Bankastræti Club-málinu svokallaða mun fara fram í veislusal í veitingahúsinu Gullhömrum í Grafarholti í Reykjavík. Sakborningar í málinu eru á þriðja tug og því er ekki hægt að halda aðalmeðferði í dómshúsinu að Lækjartorgi.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem öllum verjendum í málinu barst nýverið og Vísir hefur undir höndum. Þar segir að aðalmeðferðin fari fram dagana 25. til 29. september næstkomandi.
„Aðalmeðferðin mun fara fram í sal að Þjóðhildarstíg 2, í Gullhömrum, en öll aðstaða þar uppfyllir þarfagreiningu dómsins,“ segir í póstinum.
Málið var þingfest þann 21. mars síðastliðinn, við heldur óvenjulegar aðstæður. Sakborningar í málinu eru 25 karlmenn á aldrinum átján til 36 ára og því þurfti að þingfesta málið í fjórum hollum.
Ljóst er að ekki er unnt að skipta aðalmeðferð með þeim hætti og því þurfti að leita annara lausna. Nú er sú lausn fundin í formi veislusals, sem undir venjulegum kringumstæðum hýsir viðburði á við árshátíðir menntaskóla og fyrirtækja og brúðkaup.
Í tölvupóstinum kemur jafnframt fram að fyrirtöku til framlagningar greinargerða og fleira verði frestað til haustsins, en það stafi meðal annars af því að beðið er matsgerðar.
Verjandi nítján ára manns sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps á skemmtistaðnum Bankastræti Club í nóvember í fyrra segir gæsluvarðhald sem hann hefur sætt leggjast verulega á hann. Hann sér ekki hvernig aðalmeðferð í málinu eigi að geta farið fram í húsakynnum Héraðsdóms Reykjavíkur.
Þingfestingu í Bankastræti Club málinu var framhaldið eftir hádegi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fimm karlmenn til viðbótar komu fyrir dóminn og neituðu allir sök í málinu. Einn ákærðu vildi ekki svara spurningunni hvort hann hefði verið á skemmtistaðnum umrætt kvöld.
Héraðssaksóknari hefur ákært 25 í tengslum við rannsókn sína á hnífaárás á skemmtistaðnum Bankastræti Club í nóvember í fyrra. Einn er ákærður fyrir tilraun til manndráps.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.