Fjölgunin hefur verið sérstaklega mikil á árunum 2021 og 2022.Vísir/Vilhelm
Frá árinu 2018 hefur lyfjaávísunum fjölgað nærri þrefalt meira en Íslendingum. Þetta kemur fram í ársskýrslu Lyfjastofnunar fyrir árið 2022 sem birt var í dag.
Árið 2018 var heildarfjöldi ávísaðra lyfja rúmlega 3,8 milljónir en í fyrra var fjöldinn orðinn nærri 4,6 milljónir. Þetta er uppsöfnuð fjölgun upp á 20,8 prósent.
Á sama tíma hefur Íslendingum aðeins fjölgað um 8 prósent, það er úr rúmlega 348 þúsund í rúmlega 376 þúsund.
Í skýrslu Lyfjastofnunar kemur fram að fjölgun lyfjaávísana hafi verið sérstaklega mikil árin 2021 og 2022, 6,8 prósent og 6,4 prósent en fram að því hafi fjölgunin verið undir 4 prósentum.
Öldruðum fjölgar
Greint er frá því að öldruðum Íslendingum hafi fjölgað hlutfallslega mun hraðar en yngra fólki. Í hópnum 65 ára og eldri er fjölgunin 15 prósent.
Gæti það skýrt fjölgunina að hluta, ásamt stóraukins ferðamannastraums og áhrifa covid faraldursins. Þá hefur verið greint frá aukinni notkun geðlyfja á Íslandi á undanförnum árum.
Notkun ADHD lyfja jókst um 12,3 prósent milli ára 2021 til 2022 en fyrra árið nam hún 51 dagskammti á hverja 1.000 íbúa en 57 dagskömmtum seinna árið. Þetta er minni aukning en undanfarin ár.
Einn virtasti prófessor samtímans í sálfræði og geðlækningum telur Íslendinga ofnota þunglyndislyf. Hann bendir á að rannsóknir hafi sýnt að dagleg hugleiðsla í stuttan tíma geti haft mun jákvæðari áhrif á andlega heilsu fólks til lengri tíma en lyf.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.