Innlent

Stjórn skotfélagsins biður rússnesku þjóðina og Pútín afsökunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AP/Gavriil Grigorov

Stjórn Skotfélags Húsavíkur vill biðja rússnesku þjóðina og Vladimír Pútín, forseta Rússlands, afsökunar. Það er eftir að sendiráð Rússlands á Íslandi kvartaði yfir því að mynd af andliti Pútíns hafi verið sett á skotskífu í auglýsingu skotfélagsins á Facebook fyrir mót.

Í yfirlýsingu sem starfsmenn sendiráðsins birti á Facebook í dag segir að litið hafi verið á myndina sem móðgun við þjóðarleiðtoga Rússlands. Þá sé birting hennar brot á siðferðisviðmiðum íþróttahreyfinga. Í yfirlýsingunni var þess krafist að myndin yrði fjarlægð, sem var gert.

Sjá einnig: Rússar reiðir Skotfélagi Húsavíkur vegna myndar af Pútín

Í yfirlýsingu frá stjórninni segir að það sé skýr stefna skotíþróttafélaga að „skotfimi snýst um íþróttir þar sem skotið er á keppnisskotmörk og fyrirbýður félagið sér alla nálgun við ofbeldi og glæpi sem tengst gætu skotíþróttabyssum“.

Þar segir einnig að það hafi verið kappsmál innan hreyfingarinnar í áraraðir að þjálfa íþróttafólk og auka skilning almennings og yfirvalda á gildi skotíþrótta og kenna ábyrga meðferð á skotíþróttabyssum.

Því hafi einstaklingnum sem birti myndina verið vísað frá ábyrgðarstörfum fyrir félagið og er hann sagður sæta agaúrræðum í takt við lög og reglur íþróttahreyfingarinnar.

„Stjórn Skotfélags Húsavíkur vonar að þetta mál dragi ekki skugga á það frábæra starf sem unnið hefur verið á sviði skotíþrótta og þann frábæra árangur sem íslenskt skotíþróttafólk er að sýna á smáþjóðaleikum á Möltu þessa dagana.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.