Guðmundur Tyrfingsson ehf., (GTS) er rótgróið fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað 1969. Fyrirtækið er rútufyrirtæki, ferðaskrifstofa og skipuleggjandi ferða á Íslandi. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra mætti á verkstæði Guðmundar Tyrfingssonar í vikunni til að taka formlega í notkun nýjustu rútu fyrirtækisins, lúxus rafmagnsrútu með 49 leðursætum, USB hleðslu við öll sæti og salerni. Ráðherrann keyrði um plan fyrirtækisins og fórst það verk vel úr hendi.
„Þetta er náttúrulega fullkomin rafmagnsrúta, sem er með rafmagnskyndingu og rafmagnskælingu, þannig að hún er alveg 100% rafmagn. Það er gefin upp drægni 350 til 400 kílómetrar, þannig að það er svona við bestur aðstæður,“ segir Tyrfingur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
En hvað tekur langan tíma að hlaða rútuna?
„Það fer eftir hleðslustöðinni en við erum að fara að gera stóra hleðslustöð , sem getur tekið allt að 600 kílóawatta hleðslu, þá eigum við að vera innan við klukkutíma að hlaða bílinn“, segir Tyrfingur.

Og svo á að reisa á athafnasvæði Guðmundar Tyrfingssonar stóra hleðslustöð fyrir stóra og smá bíla en þangað verða allir velkomnir með farartækin sín, sem ganga fyrir rafmagni.
„Já, við ætlum að gera gríðarlega stórt verkefni þar en þar getum við hlaðið allt að 28 til 30 bíla með öflugri hleðslu opið öllum. Þetta er það sem vantar og þetta er það sem okkur vantar svo víða tl að geta notað svona bíl með góðu móti,“ segir Tyrfingur.

Og Sigurður Ingi stóð sig vel þegar hann var að prófa rútuna eða hvað?
„Já, já, hann stóð sig virkilega vel. Við ættum að ráða hann, sem bílstjóra þegar hann er hættur í ráðherrastólnum," segir Tyrfingur kampakátur með ráðherrann og nýju rútuna.
