Innlent

Lög­maður hjá Skattinum hlaut verð­laun fyrir árangur í skip­stjórn

Árni Sæberg skrifar
Thelma Þorbjörg er ekki bara með lögmannsréttindi heldur er hún einnig afburðanemandi í skipstjórnarfræðum.
Thelma Þorbjörg er ekki bara með lögmannsréttindi heldur er hún einnig afburðanemandi í skipstjórnarfræðum. Tækniskólinn

Fjölmennasta útskrift í sögu Tækniskólans fór fram í gær. Meðal útskrifaðra var Thelma Þorbjörg Sigurðardóttir, sem hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í skipstjórnargreinum. Hún er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, með lög­manns­rétt­indi og starfar hjá Skatt­inum.

Í tilkynningu á vef Tækniskólans segir að Thelma Þorbjörg hafi tekið óvænta ákvörðun um að skrá sig í Skipstjórnarskólann þegar heimsfaraldur Covid-19 stóð sem hæst.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara út í, enda aldrei verið á sjó, en ég kolféll hins vegar fyrir fræðunum. Þar sem Covid var ekkert á leiðinni neitt ákvað ég að skrá mig í Skipstjórnarskólann um haustið og tók nokkur fög þá önnina. Þegar þarna var komið við sögu var hreinlega ekki aftur snúið. Ég hafði uppgötvað ástríðu fyrir sjómennsku,“ er haft eftir henni í tilkynningu.

Þá segir að Thelma Þorbjörg beri kenn­urum og stjórn skólans góða sögu. Hún verði kenn­urum sínum ævin­lega þakklát, þeirra vegna hafi hún haft ein­stak­lega gaman af náminu enda búi kenn­ar­arnir yfir gríðarlegri reynslu og þekk­ingu á sínu sviði. 

Thelma hafi mikinn áhuga á flutn­inga­skipum og gæli við þá hug­mynd að fara á sjóinn í framtíðinni og spyrji sig: „kannski enda ég einn daginn í brúnni hjá Eim­skip, hver veit?“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×