Innlent

Sagðist hafa fundið tíu þúsund evrur á leið heim úr skólanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stúlkan tjáði lögreglu fyrst að rúmenskur karlmaður hefði beðið hana um að hjálpa sér að skipta peningum. Nokkrum mánuðum síðar sagðist hún hafa fundið tíu þúsund evrur í hvítum poka í almenningsgarði á leið heim úr skóla. Á myndinni er einn slíkur almenningsgarður í Reykjavík sem þó tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Stúlkan tjáði lögreglu fyrst að rúmenskur karlmaður hefði beðið hana um að hjálpa sér að skipta peningum. Nokkrum mánuðum síðar sagðist hún hafa fundið tíu þúsund evrur í hvítum poka í almenningsgarði á leið heim úr skóla. Á myndinni er einn slíkur almenningsgarður í Reykjavík sem þó tengist ekki fréttinni með beinum hætti. Vísir/Vilhelm

Tveir rúmenskir karlmenn hafa verið dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa notað peninga í verslunum og í Háspennusal sem þeir máttu gruna að væru falsaðir. Ófjárráða stelpa kom að því að skipta fölsuðum evruseðlum í íslenska peninga.

Málið má rekja til laugardagskvöldsins 18. janúar 2020 þegar tveir rúmenskir karlmenn, annar með sakaferil, skiptu 35 fölsuðum 100 evru seðlum og 22 fölsuðum 200 evru seðlum í spilasal Háspennu við Laugaveg 118. Fengu þeir í staðinn tæplega 1,1 milljón í íslenskum krónum.

Sama kvöld mætti ófjárráða rúmensk stelpa tvisvar í verslun Hagkaups í Spönginni og greiddi fyrir vörur með fölsuðum 200 evru seðlum. Keypti hún vörur fyrir innan við tvö þúsund krónur í hvort skipti en gekk út með í kringum 23 þúsund krónur íslenskar. Þá keypti hún snakkpoka á bensínstöð N1 í Grafarvogi og greiddi með fölsuðum 200 evru seðli og fékk til baka um 25 þúsund krónur.

Sama kvöld keypti rúmensk kona vörur í fyrrnefndri Hagkaupsverslun, greiddi fyrir með fölsuðum 200 evru seðli og gekk út með tæplega 22 þúsund krónur.

Þá keypti karlmaður nokkur mat á Ölveri í Glæsibæ þessa helgi. Greiddi hann fyrir með 100 evru seðli sem reyndist falsaður. Fékk hann í staðinn 11.500 krónur í afgang.

Öll voru ákærð af héraðssaksóknara fyrir að hafa dreift fölsuðum peningum en til vara að hafa notað peninga sem þau máttu gruna að væru falsaðir.

Gjörbreytt frásögn

Útskýringar og frásagnir fólksins eru með nokkrum ólíkindum. Stúlkan ófjárráða lýsti því fyrst í samtali við lögreglu að annar rúmensku karlmannanna hefði nálgast hana með það fyrir augum að hún aðstoðaði þá með að skipta evrunum fölsuðu í íslenskar krónur. Sú frásögn breyttist á nokkrum mánuðum á þann veg að hún hefði fundið ómerktan hvítan innkaupapoka úr plasti í almenningsgarði á leið heim úr skólanum. Í honum hefðu verið tíu þúsund evrur.

Hún hefði farið í Hagkaup og N1 til að skipta seðlunum og svo fengið rúmenska karlmanninn til að aðstoða sig við frekari skipti með að fara í Háspennu. Bankar hefðu verið lokaðir yfir helgina, annars hefði hún farið þangað. Hún hefði viljað geta keypt sér hluti á sunnudeginum. Framburður rúmensku karlmannanna, sem höfðu ekki áður tjáð sig við lögreglu, var í samræmi við frásögn stúlkunnar.

Dómurinn taldi fyrri framburð stúlkunnar trúverðugri en þann síðari. En í ljósi þess að framburður allra var á sama veg og skortur var á rannsóknargögnum væri ekki hægt að fullyrða að frásögn þeirra væri efnislega röng. Því lægi ekki fyrir sönnun um að þau hefðu gerst sek um að að hafa með ásetningi dreift fölsuðum seðlum.

Þótt frásögn stúlkunnar að hafa fundið poka með evrum á víðavangi væri með nokkrum ólíkindum væri hún alls ekki fráleit. Það að finna peninga með slíkum hætti þurfi í sjálfu sér ekki að leiða þann sem finnur að þeirri ályktun að seðlarnir væru falsaðir.

Voru þau því öll sýknuð um að hafa brotið gegn 151. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um ásetning með dreifingu falsaðra peninga.

Bankarnir hefðu verið lokaðir

Dómurinn horfði þá til varakröfu héraðssaksóknara sem byggði á 152. grein laganna þess efnis að fólkið hefði mátt gruna að peningarnir væru falsaðir þegar þau létu þá af hendi í skiptum fyrir íslenska peninga. Dómurinn taldi mega ráða af hegðun fólksins að þau gætu ekki annað en grunað þetta.

Leit dómurinn til þess hve miklum peningum þau skiptu á skömmum tíma fyrir og eftir miðnætti helgina 18. til 19. janúar 2020. Í öllum viðskiptum var andvirði þess sem keypt var lítið brot af ætluðu verðgildi evra gagnvart íslensku krónunni. Alltaf fengu þau mjög ríflegan afgang.

Svo hafi steininn tekið úr þegar rúmensku karlmennirnir mættu í Háspennusalinn á Laugarvegi laugardagskvöldið undir miðnætti og höfðu á innan við tveimur klukkustundum skipt megninu af þeim 10 þúsund evrum sem stúlkan sagðist hafa fundið.

Af þeirri atburðarás taldi dómurinn ljóst að fólkið hefði viljað skipta eftirlíkingunum með hraði fyrir gjaldgenga íslenska mynt. Þá taldi dómurinn skýringu stúlkunnar að þau hafi þurft að gera þetta með þessum hætti því bankar væru lokaðir um helgar ekki haldbæra. Jafnvel þótt stúlkan hafi haft hug á að fara og kaupa sér föt, síma og skó á sunnudeginum.

Lét eins og illa gengi í spilakössunum

Þá vísaði dómurinn til þess að annar rúmenski karlmaðurinn hefði beitt blekkingum með því að láta svo út líta við starfsmann Háspennu að spilalukkan þeirra væri svo hrikaleg að skipta þyrfti fleiri evrum yfir í krónur. Þá hefði fólkið átt að kanna betur peningaseðlana í ljósi þess hvernig peningarnir hefðu að sögn fundist á víðavangi. Rússneskt letur var að finna á seðlunum sem hefði átt að vera sterk vísbending um fölsun.

Sló dómurinn því föstu að fólkið hefði ekki getað annað en grunað að peningarnir væru falsaðir.

Karlmaður sem keypti mat á Ölveri þessa helgina fyrir hundrað evrur sagðist hafa fengið peningana þegar hann seldi öðrum rúmensku karlmannanna síma á netinu. Við rannsókn málsins var ekki gerð nein tilraun hjá lögreglu til að sannreyna þá fullyrðingu. Var hann sýknaður af ákæru fyrir að hafa mátt gruna að peningaseðillinn væri falsaður.

Rúmensku karlmennirnir voru dæmdir í fjögurra og sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Refsingu konunnar var frestað og sömuleiðis stúlkunnar. Við ákvörðun sína leit dómurinn til þess hve langur tími leið við meðferð málsins meðal annars vegna kórónuveirufaraldursins. Voru þau dæmd til að endurgreiða Högum fyrir kaupin í Hagkaupum. Þá þurfa þeir að endurgreiða Háspennu tæplega 1,1, milljón króna. 

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×