Innlent

Aftur í einangrun grunaður um manndráp á Selfossi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan fannst látin þann 27. apríl síðastliðinn. Systir hennar segir hana aldrei hafa prófað áfengi eða önnur vímuefni.
Konan fannst látin þann 27. apríl síðastliðinn. Systir hennar segir hana aldrei hafa prófað áfengi eða önnur vímuefni. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa orðið 28 ára konu að bana á Selfossi þann 27. apríl er aftur kominn í gæsluvarðhald í fangelsinu á Hólmsheiði. Vikurnar tvær á undan hafði hann fengið að umgangast aðra fanga á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi.

Tveir karlmenn sem eru samkvæmt heimildum fréttastofu hálfbræður voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglu á málinu. Öðrum var sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir viku en hinn er enn á bak við lás og slá.

Héraðsdómur féllst þann 10. maí á áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar og féllst Landsréttur á að aflétta kröfu um einangrun. Fékk hann því að umgangast aðra fanga.

Lögreglan á Suðurlandi gerði aftur kröfu um gæsluvarðhald og einangrun fyrir helgi. Héraðsdómur féllst aftur á kröfu lögreglu en verjandi mannsins kærði úrskurðinn til Landsréttar. Koma verður í ljós hvort Landsréttur fellst á kröfu lögreglu eða fellir aftur úr gildi einangrun úr héraði.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir rannsókn málsins miða mjög vel. Beðið er eftir niðurstöðum úr rannsóknum á lífsýnum og sömuleiðis tæknigögnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×