Innlent

Gekk fram á „sæ­skrímsli“ í fjörunni við Geldinga­nes

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hvorki Björn né hundurinn hans voru sérstaklega spenntir þegar þeir löbbuðu fram á 30 sentímetra langan orminn. 
Hvorki Björn né hundurinn hans voru sérstaklega spenntir þegar þeir löbbuðu fram á 30 sentímetra langan orminn.  Vísir

Leið­sögu­maðurinn Björn Júlíus Gríms­son gekk fram á það sem líkist risa­stórri syndandi marg­fætlu í fjörunni við Geldinga­nes í gær. Hann grínast með að um „sæ­skrímsli“ hafi verið að ræða. Líf­fræðingur segir að þarna sé á ferðinni sér­lega glæsi­legt ein­tak af bursta­ormi.

„Ég var á göngu með hundinn þegar ég tók eftir ein­hverju synda í sjónum. Ég hélt fyrst að þetta væri áll og ég er nú alinn upp á Akra­nesi, vanur að veiða alla daga og hélt þess vegna að ég hefði séð allt en þetta hef ég aldrei séð áður.“

Hann segist hafa rifið upp símann og tekið mynd og haldið hundinum frá dýrinu, sem hafi synt upp í fjöru um skamma stund.

„Þetta var lík­lega um þrjá­tíu sentí­metrar að stærð. Ég hugsaði bara hvað þetta væri ó­geðs­legt og tók upp símann, kannski vegna þess að vin­kona mín er með fóbíu fyrir þúsund­fætlum og ég ætlaði að stríða henni. Svo áttaði ég mig á því að ég vissi ekkert hvað þetta var.“

Mest hissa segist Björn hafa verið á því hve mikið hafi verið af dýra­tegundinni í fjörunni í gær. „Þetta var ör­stutt labb sem ég tók þarna og ætli ég hafi ekki, án þess að ýkja, séð svona fimm eða sex.“

Ráð­gátan leyst

Færsla Bjarnar á sam­fé­lags­miðlum þar sem hann grínast með að um sæ­skrímsli sé að ræða hefur vakið mikla at­hygli. Björn segist hafa spurst fyrir í kringum sig um dýrið, meðal annars hjá sér reyndari mönnum.

„Það er fólk sem hefur búið alla sína tíð í grenndinni við sjóinn, meðal annars úti í Eyjum, en það hafði aldrei séð þetta áður eða heyrt um þetta.“

Á endanum hafi hollensk vin­kona hans sem jafn­framt er skrið­dýra­sér­fræðingur leyst ráð­gátuna. „Hún sendi mér hlekk að grein þar sem kemur fram að þetta sé það sem við köllum of­vaxinn bursta­ormur á ís­lensku og bætti því við í þokka­bót að þeir gætu bitið!“ segir Björn og við­bjóðurinn leynir sér ekki í röddinni.

„Fólk ætti kannski að sleppa sjósundinu eftir vinnu,“ bætir Björn við í gríni en sjósund er vin­sælt á svæðinu.

Sjósund er nokkuð vinsælt í grennd við svæðið þar sem Björn gekk fram á ormana.Vísir/Vilhelm

Glæsi­legt ein­tak

Vísir bar mynd­bandið undir líf­fræðinginn Jón Már Hall­dórs­son sem stað­festi að þarna væri bursta­ormur á ferðinni. Hann kveðst að vísu nokkuð ryðgaður í bursta­orma­fræðunum, enda eru 23 ár síðan hann skrifaði grein um tegundina á Vísinda­vefinn.

„En ég er nokkuð viss um að þetta sé glæsi­legt ein­tak af einum slíkum,“ segir Jón Már sem bætir því spurður að hann hafi ekki heyrt að tegundin bíti fólk.

„Ég hef aldrei heyrt að þeir geti skaðað fólk eða blóðgað með biti en náttúran leynir á sér. Ég hef heyrt að stórar krossköngu­lær hafi bitið börn til blóðs. Mér sýnist munn­limir þeirra ekki vera þess eðlis.“

Í grein sinni á Vísinda­vefnum segir Jón Már að bursta­ormar séu gríðar­lega fjöl­skrúðugur hópur dýra og verðugir at­hygli þeirra sem á­huga hafa á að kynna sér líf­ríkið í fjörum hér­lendis. „Meðal annars er þar að finna bursta­orm sem nefnist risa­skeri og getur orðið fá­einir tugir senti­metra á lengd.“

Algengt sé að burstaormar lifi í einhvers konar göngum sem þeir grafi sér í mjúkum sjávarbotninum. „Hér við land er ein bursta­orma­tegund öðrum kunnari fyrir þá iðju en það er sand­maðkurinn (Arenicola marina) sem lifir í leirum hér við land og þekkist á saur­hrúgum sem hann skilur eftir sig við holur sínar.“

Burstaormar eru gríðarlega fjölskrúðugur hópur dýra að sögn Jóns. Vísir/Getty


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×