Lífið

Euro­vision-sigur­vegari heiðurs­gestur á Sel­fossi á úr­slita­kvöldinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hin danska Emmelie De Forest var tvítug að aldri þegar hún vann sigur í Eurovision í Malmö í Svíþjóð árið 2013.
Hin danska Emmelie De Forest var tvítug að aldri þegar hún vann sigur í Eurovision í Malmö í Svíþjóð árið 2013. EPA

Danska söngkonan Emmelie De Forest, sem bar sigur úr býtum í Eurovision árið 2013 með laginu Only Teardrops, mun taka lagið í sérstöku Eurovision-partýi á tónleikastaðnum Sviðinu á Selfossi næstkomandi laugardag. Úrslit Eurovision í Liverpool fara fram umrætt kvöld.

Í tilkynningu segir að Selfyssingurinn Einar Bárðarson verði veislustjóri kvöldsins og að Emmelie De Forest muni svo troða upp og taka lagið að Eurovision-útsendingunni lokinni. Þá muni DD Gassi Kling spila Eurovision-lög langt fram á nótt.

Sviðið er nýr tónleikastaður sem opnaði í nýja miðbænum á Selfossi síðasta haust.

De Forest vann öruggan sigur í Eurovision-keppninni í Malmö í Svíþjóð 2013. Hún var þá tvítug að aldri og hlaut 281 stig, 47 stigum fleiri en framlag Asera sem hafnaði í öðru sæti.

Sigur Dana árið 2013 var þriðji sigur þeirra í Eurovision. Þeir unnu fyrst árið 1963 með laginu Dansevise með þeim Grethe og Jørgen Ingmann og svo aftur árið 2000 með laginu Fly on the Wings of Love með Olsen-bræðrum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×