Innlent

Reynslubolti og Tik Tok prestur glíma við vígslubiskupinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti er stuðningsmaður Manchester United og Vals.
Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti er stuðningsmaður Manchester United og Vals. Vísir/Magnús Hlynur

Nokkur spenna er í loftinu fyrir komandi kosningu vígslubiskups í Skálholti. Tveir prestar fengu einni fleiri tilnefningu en starfandi vígslubiskup.

Kristján Björnsson er vígslubiskup í Skálholti síðan 2023. Hann fagnar á heimasíðu sinni tilnefningu til endurkjörs. Hann hlaut átján atkvæði og segist hlakka til frekari uppbyggingu í Skálholti nái hann kjöri. Það er alls ekki víst enda fengu tveir aðrir prestar einni tilnefningu meira.

Arna Grétarsdóttir fékk hins vegar nítján tilnefningar. Hún er reynslubolti í faginu og meðal annars verið sóknarprestur á Seltjarnarnesi og Reynivöllum í Kjósarhreppi.

Dagur Fannar Magnússon, þrítugur sóknarprestur í Skálholtsprestakalli sem var prestur í Heydölum árin 2020-20201, hlaut líka nítján tilnefningar.

Þar vakti hann athygli á samfélagsmiðlinum Tik Tok til að koma boðskap kirkjunnar á framfæri við unga fólkið. Hann birti meðal annars myndband af kraftaverki Jesú, þegar vatni var breytt í vín.

„Hjarta mitt brennur fyrir kirkjuna og þjónustu við fólkið. Auðmjúkur tek ég við þessari stóru áskorun sem mér er treyst fyrir og býð mig fram til þjónustu við ykkur,“ segir Dagur Fannar á Facebook.

Hann hefur verið í TikTok pásu síðustu misserin.

Næstir komu Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson með tólf tilnefningar og Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson með átta. Á tilnefningarskrá voru 135, 67 tilnefndu og alls 71 var tilnefndur. Auðar og ógildar tilnefningar voru 7.

Kosningu til vígslubiskups í Skálholti lýkur þann 12. júní.

Uppfært: Í fyrri útgáfu var tilnefningatölum Kristjáns og Dags Fannars víxlað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×