Innlent

Snjó­koma í kortunum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Veðurfræðingurinn telur að úrkoman verði ekki mikil, en einhver þó.
Veðurfræðingurinn telur að úrkoman verði ekki mikil, en einhver þó. Vísir/Vilhelm

Sumarið er ekki komið enn og gert er ráð fyrir einhverri snjókomu víða um land í vikunni. Kalt verður í veðri en veðurfræðingur telur að úrkoman muni ekki valda vandræðum.

Á fimmtudag má gera ráð fyrir lítils háttar snjókomu í höfuðborginni og á norðan- og austanverðu landinu. Hiti verður líklega á og yfir frostmarki víðast hvar.

Svona lítur spáin út fyrir fimmtudaginn 27. apríl klukkan 15:00.Veðurstofan

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að þetta sé einfaldlega staðan.

„Það er nefnilega alveg séns á því. Næstu vika, tíu daga, verður svalara veður en oft á þessum árstíma. Það eru þessar norðan- og norðaustanáttir. En það er oft merkilegt að síðustu vikuna í apríl og fyrstu tvær í maí þá er stundum eins og það komi – eins og einn veðurfræðingur segir – fimmta árstíðin. Þá leggst oft í norðaustanáttir og er frekar kalt en þá yfirleitt bjart hérna suðvestanlands.“ 

Í þetta skipti virðast þó líkur vera á úrkomu, snjókomu, í höfuðborginni og víðar.

„Ég á ekki von á því að þetta verði mikið eða að þetta muni valda einhverjum vandræðum. Það fer kólnandi hjá okkur þegar það kemur inn í vikuna. Og það er alveg útlit fyrir að það verði um frostmark einhverjar nætur í vikunni.“

Ef litið er á sjálfvirka spá Veðurstofunnar virðist ætla að snjóa hressilega á Vestfjörðum næstu helgi. 

Lægð gæti valdið töluverðri úrkomu á vestanverðu landinu.Veðurstofan

Birta Líf segir að útlit sé fyrir að lægð Norður úr hafi muni valda hvassviðri og úrkomu á Vestfjörðum. Spáin geti þó hæglega breyst í vikunni.

„Heilt yfir, þá er útlit fyrir kalda viku og möguleiki á að einhver úrkoma falli sem snjókoma,“ segir Birta Líf að lokum.


Tengdar fréttir

Vorið verður fremur svalt

Fremur svalt verður í veðri í vor en eiginleg vorhret eru ólíkleg. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×