Maðurinn lést seint á fimmtudagskvöld og var með fleiri en einn stunguáverka. Aldur hinna handteknu hefur ekki fengist staðfestur en greint hefur verið frá því að fjórmenningarnir séu á aldrinum 17 til 19 ára. Lögregla fór fram á gæsluvarðhald til fimmtudagsins 27. apríl, sem fallist var á í heild sinni. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að verið sé að skoða gögn úr eftirlitsmyndavélum í nágrenninu. Um sé að ræða myndefni sem sýni ekki aðeins árásina sjálfa.
„Í svona málum þá bara erum við að rannsaka aðdragandann og árásina sjálfa, og það sem gengur á eftir. Það kannski liggur í hlutarins eðli að við erum að skoða víðar heldur en bara kannski nákvæmlega þegar árásin á sér stað.“
Vitni urðu að árásinni, sem lögregla hefur rætt við. Þá skipti upplýsingar frá þeim sem tilkynnti málið til neyðarlínu miklu fyrir rannsóknina.
Sá síðasti handtekinn daginn eftir
Hinir grunuðu voru ekki allir handteknir beint í kjölfar árásarinnar.
„Þeir sem eru handteknir fyrst voru handteknir fljótlega eftir tilkynninguna, í kringum miðnætti. Það voru tveir. Svo einn þegar líður á nóttina og svo einn undir morgun,“ segir Grímur.
Aðeins hafi liðið nokkrar mínútur frá því árásin var tilkynnt og þar til viðbragðsaðilar hafi komið á vettvang. Grímur segist að svo stöddu ekki geta tjáð sig um aðdraganda árásarinnar eða ástæður. Allt kapp verði lagt á að klára rannsóknina eins hratt og auðið er.
„Í svona rannsóknum, eins og öllum rannsóknum lögreglu, þá þarf að gæta að gæðunum. Það gerum við að sjálfsögðu, það eru bæði gæði rannsóknarinnar og málshraði sem skipta máli. Við reynum að standa okkur í því efni. Ef það er þannig að menn sitja í gæsluvarðhaldi þangað til það er gefin út ákæra þá þarf það að gerast á tólf vikum.“