Innlent

Halda hellinum á­fram lokuðum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hellirinn fannst er unnið var að greftri grunnar fyrir nýbyggingar.
Hellirinn fannst er unnið var að greftri grunnar fyrir nýbyggingar. Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka nýfundnum helli við Jarðböðin í Mývatnssveit á ný. Markmiðið með lokuninni er að tryggja að jarðmyndanir í hellinum verði ekki fyrir óafturkræfu raski. 

Hellirinn fannst þegar unnið var að greftri grunnar fyrir nýbyggingar við Jarðböðin. Verktaki var að brjóta klöpp þegar þak hellisins gaf sig. 

Ljóst er að jarðhitaútfellingar í hellinum eru einsdæmi hér á landi. Mögulega eru örfá dæmi fyrir sambærilegum útfellingum í hraunhellum á heimsvísu, en þörf er á að kanna það betur. Útfellingarnarnar eru jarðmyndanir sem teljast hafa mjög hátt verndargildi sökum sérstöðu og fágætis. 

Um miðjan mars var ákveðið að loka hellinum í tvær vikur en hefur sú lokun nú verið framlengd. Er það gert til að tryggja að jarðmyndanirnar verði ekki fyrir óafturkræfu raski. Tók lokunin gildi á hádegi í dag. 

Á meðan lokunin er í gildi er stefnt að því vinna að undirbúningi framlengingar á lokuninni til lengri tíma til að vernda hellinn. Þá getur Umhverfisstofnun, í samráði við rekstraraðila Jarðbaðanna, veitt leyfi fyrir ferðum í hellinn sem tengjast frekari könnun hans og öðrum rannsóknum á honum, en öll önnur umferð verður óheimil.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×