Fótbolti

Rúnar Alex og félagar misstu forystuna niður undir lokin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson var í marki Alanyaspor í dag.
Rúnar Alex Rúnarsson var í marki Alanyaspor í dag. Vísir/Getty

Rúnar Alex Rúnarsson og félagar hans í Alanyaspor misstu niður 2-0 forystu á lokamínútum leiks síns gegn Giresunspor í dag. Rúnar Alex lék allan leikinn í marki Alanyaspor

Fyrir leikinn í dag var Alanyaspor með 28 stig í ellefta sæti tyrknesku deildarinnar en mótherjarnir í Giresunspor í fallsæti, fjórum stigum þar á eftir.

Leikurinn var því mikilvægur og tækifæri fyrir Rúnar Alex og félaga að skilja sig betur frá fallbaráttunni. Það virtist líka ætla að verða raunin í dag. Gestirnir í Alanyaspor komust yfir á 17. mínútu með marki frá Efecan Karaca og tvöfölduðu forystuna rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Zinedin Ferhat bætti við öðru marki.

Þegar sex mínútur voru eftir tókst Giresunspor hins vegar að minnka muninn þegar Dogan Davas skoraði með skalla og aðeins fjórum mínútum síðar fékk heimaliðið vítaspyrnu sem Brandley Kuwas jafnaði úr.

Lokatölur 2-2, svekkjandi niðurstaða fyrir Rúnar Alex Rúnarsson og félaga. Rúnar Alex lék allan leikinn í marki Alanyaspor og nældi sér í gult spjald á 56. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×