Innlent

For­seti Ungra um­hverfis­sinna til Seðla­bankans

Atli Ísleifsson skrifar
Tinna kemur til Seðlabankans frá Klöppum, þar sem hún starfaði sem sjálfbærnisérfræðingur.
Tinna kemur til Seðlabankans frá Klöppum, þar sem hún starfaði sem sjálfbærnisérfræðingur. Aðsend

Tinna Hallgrímsdóttir hefur látið af störfum sem forseti Ungra umhverfissinna og verið ráðin til starfa sem loftslags- og sjálfbærnisérfræðingur Seðlabanka Íslands.

Hún mun ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Ungra umhverfissinna á aðalfundi sem fram fer um miðjan næsta mánuð. Hún kemur til Seðlabankans frá Klöppum þar sem hún hefur starfað sem sjálfbærnisérfræðingur.

Tinna greinir frá þessu í færslu á Facebook í dag. Þar segir Tinna að hún muni starfa á skrifstofu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og vinna „þvert á svið bankans að framgangi loftslagsmála og sjálfbærni, bæði hvað varðar rekstur bankans sem og þau faglegu markmið sem setja þarf í fjármálaeftirliti, fjármálastöðugleika og peningastefnu til framtíðar.“

Tinna segist mjög spennt fyrir verkefninu. „Í ljósi þessa mun ég ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Ungra umhverfissinna á aðalfundinum þann 15. apríl og hefur Egill Ö. Hermannsson, varaforseti, tekið við skyldum mínum. Ég kveð stjórn með þakklæti og hlakka til áframhaldandi samstarfs sem almennur félagi.“

Sem forseti Ungra umhverfissinna var Tinna skipuð af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í Loftslagsráð, auk þess að eiga sæti í Sjálfbærniráði. Hún er jafnframt ungmennafulltrúi Íslands í sérfræðingahóp Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun, en áður gegndi hún stöðu ungmennafulltrúa Íslands til Sameinuðu þjóðanna á sviði sjálfbærrar þróunar ásamt því að vera varafulltrúi á sviði mannréttinda.

Tinna er með meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands auk B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×