Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti ólétta konu frá Neskaupstað til Egilsstaða í kvöld.Landhelgisgæslan
Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið á ellefta tímanum í morgun og fór austur á land vegna snjóflóðanna sem féllu þar í morgun. Í kvöld flutti þyrlan svo ólétta konu frá Neskaupstað og yfir á Egilsstaði. Gert er ráð fyrir því að þyrlan verði fyrir austan í nótt.
„Við erum búin að bíða eftir því að hægt væri að fara með þyrluna inn á Neskaupstað. Það var flogið með lækni, tvo lögreglumenn og tvo frá Rauða krossinum í Neskaupstað frá Egilsstöðum. Þar lenti þyrlan fyrir um hálftíma síðan,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við fréttastofu.
Mynd tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag.Landhelgisgæslan
Þegar þyrlan lenti í Neskaupstað var ákveðið að flytja ólétta konu þaðan og inn á Egilsstaði. Samkvæmt Ásgeiri var ekki um neyðarflutning að ræða heldur var ákveðið að flytja konuna af öryggisástæðum.
„Við gerum ráð fyrir því að þyrlan verði fyrir austan í nótt og að áhöfnin gisti þar.“
Gista í varðskipinu.
Varðskipið Þór er nú einnig á leiðinni austur. Varðskipið er væntanlegt inn á Seyðisfjörð klukkan 21:30. Þaðan verður síðan farið með vistir og viðbragðsaðila, bæði inn á Neskaupstað og Eskifjörð.
„Það eru sex sem fara úr á hvorum stað,“ segir Ásgeir. „Síðan koma viðbragðsaðilar sem eru þarna fyrir austan til með að gista í varðskipinu í nótt, það eru um tuttugu manns.
Að minnsta kosti þrjú snjóflóð féllu í Neskaupstað í Norðfirði í morgun og féll eitt þeirra á fjölbýlishús við Starmýri í bænum. Unnið er að rýmingu og búið er að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna. Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér neðst í fréttinni.
Þegar snjóflóð féllu á Neskaupstað í morgun var neyðarstigi Almannavarna lýst yfir. Nú hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi ákveðið að fara af neyðarstigi niður á hættustig.
Að minnsta kosti þrjú snjóflóð féllu í Neskaupstað í Norðfirði í morgun. Björgunarsveitarmenn hafa fjölmennt þangað og í önnur bæjarfélög á svæðinu til að hjálpa og vera til taks ef önnur snjóflóð falla.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.