Innlent

Mættir austur með trylli­tæki

Máni Snær Þorláksson og Kristján Már Unnarsson skrifa
Gísli Rafn Jónsson björgunarsveitarmaður er mættur á Egilsstaði. Landsvirkjun lagði til flutningabílinn sem flutti snjóbílinn.
Gísli Rafn Jónsson björgunarsveitarmaður er mættur á Egilsstaði. Landsvirkjun lagði til flutningabílinn sem flutti snjóbílinn. Stöð 2

Að minnsta kosti þrjú snjóflóð féllu í Neskaupstað í Norðfirði í morgun. Björgunarsveitarmenn hafa fjölmennt þangað og í önnur bæjarfélög á svæðinu til að hjálpa og vera til taks ef önnur snjóflóð falla.

„Það þýddi ekkert annað en að drífa sig af stað,“ segir Gísli Rafn Jónsson björgunarsveitarmaður í samtali við fréttamann á Egilsstöðum í dag.  „Við reynum að aðstoða félaga okkar hérna og vera tilbúnir ef þarf.“

Klippa: Þýddi ekkert annað en að drífa sig af stað.

Gísli er í  björgunarsveitinni Stefáni í Mývatnssveit og mætti hann á Egilsstaði ásamt öðrum björgunarsveitarmönnum með tryllitæki sem getur hjálpað til ef kallið berst.

 „Þetta er beltabíll, snjóbíll og alls konar, gengur á öllu blautu og hverju sem er, sniðugt tæki,“ segir Gísli.

Eins og færið er hér á Austfjörðum og á Austurlandi núna þá eru það kannski bara svona tæki sem duga?

„Í sumum aðstæðum er það algjörlega þannig. Þetta getur verið mjög gagnlegt ef á þarf að halda, þegar önnur tæki ganga ekki.

Aðspurður segir Gísli að fleiri björgunarsveitarmenn séu á leiðinni. „Það eru að koma sveitir frá Akureyri veit ég líka, Súlumenn eru að koma og einhverjar sveitir frá Húsavík líka,“ segir hann.

„Við reynum að vera tilbúin. Vonandi þarf ekki á því að halda en það er best að vera tilbúinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×