Á myndinni sem um ræðir sjást skilaboð sem koma upp í hraðbanka. Þar segir: „Edda Falak hefur aldrei starfað í þessum banka. Við erum betri saman.“
Landsbankinn leggur áherslu á að bæði myndskeiðið og myndin séu fölsuð. Í tilkynningu segir:
„Í dag hefur birst falsað myndskeið og fölsuð ljósmynd af hraðbanka Landsbankans. Á myndinni og myndskeiðinu er texti sem vísar til starfa nafngreindrar konu. Um er að ræða fölsun og að sjálfsögðu hefur slíkur texti aldrei birst í hraðbanka Landsbankans.“
Landsbankinn segir að sér þyki miður að einhver sjái sér hag í að vega að umræddri manneskju með þessum ósmekklega hætti.
Sagði ekki satt og rétt frá
Edda gekkst við því fyrir helgi að hafa ekki lýst stöðu sinni hjá fjármálafyrirtækjum í Danmörku rétt. Baðst hún velvirðingar á því í yfirlýsingu ásamt stjórnendum Heimildarinnar. Kom yfirlýsingin í kjölfar opins bréfs Frosta Logasonar sem hann birti á Vísi þar sem hann kvaðst hafa sannanir fyrir því að Edda hafi logið til um starfsferil sinn í fjölmiðlum.
Nánar tiltekið sagði Edda meðal annars í viðtali á mbl.is að hún hafi unnið við „verðbréfamiðlun hjá virtum banka í Danmörku“. Svipuð var lýsing Eddu á starfi hennar í Kaupmannahöfn í viðtali hér á Vísi og á RÚV þar sem hún kvaðst hafa verið í „virtri stöðu hjá fjármálafyrirtæki“.
Í yfirlýsingu Heimildarinnar var ekki nánar tilgreint hvað það var sem Edda sagði ekki satt og rétt frá. Enn er á huldu hvert hið rétta sé varðandi starfsferil hennar. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar, sagði í viðtali við Mbl.is um helgina að hún gerði ráð fyrir að Edda myndi útskýra þetta allt saman betur síðar.
Yfirlýsing Eddu Falak og ritstjóra Heimildarinnar hefur kallað fram æði misjöfn viðbrögð landsmanna á samfélagsmiðlum. Fjöldi fólks styður Eddu með þátttöku í #afsakið-herferð á meðan aðrir setja spurningamerki við trúverðugleika hennar. Edda hefur ekkert tjáð sig um málið að því undanskildu að hún grínaðist sjálf með að senda bardagakappann Gunnar Nelson á þann næsta sem fengi hana á heilann.
Gunnar var gestur í Vikunni með Gísla Marteini á föstudagskvöld en Edda hefur undanfarin ár stundað líkamsrækt í Mjölni, bardagafélagi Gunnars. Þá er kærasti Eddu, Kristján Helgi Hafliðason yfirþjálfari Mjölnis í brasilísku jiu-jitsu.