Innlent

Úr far­banni í gæslu­varð­hald vegna dóms fyrir að skera annan mann á háls

Bjarki Sigurðsson skrifar
Landsréttur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald.
Landsréttur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald. Vísir/Vilhelm

Erlendur karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 12. apríl næstkomandi vegna evrópskrar handtökuskipunar eftir að maðurinn var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og líkamsárás erlendis.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði manninn fyrir tæpri viku síðan í farbann til 12. apríl næstkomandi eftir að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Lögreglustjórinn skaut síðan málinu til Landsréttar.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst evrópsk handtökuskipun frá yfirvöldum í öðru landi þar sem óskað er eftir handtöku og afhendingu á manninum. Í janúar á þessu ári var honum gert að sæta fangelsi í landinu í fjögur ár. 

Hann hafði verið dæmdur fyrir tilraun til manndráps og líkamsárás, meðal annars með því að hafa skorið á háls annars manns og eftir að hann féll við haldið áfram atlögu sinni. Ríkissaksóknari mat það sem svo að hann yrði að vera í gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna. 

Maðurinn er með litla sem enga tengingu hér á landi en býr í búsetuúrræði á vegum Útlendingastofnunar. Hann hefur gefið skýrslu hjá lögreglunni og sagði þar að hann taldi umræddu sakamáli lokið þegar hann yfirgaf landið þar sem hann sé að eigin skoðun saklaus. Þá mótmælti hann því að hann yrði afhentur. 

Landsréttur mat sem svo að þar sem hann hafnaði afhendingu og að tengsl hann við Ísland hafi verið takmörkuð sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til að tryggja nærveru hans þar til leyst hefur verið úr kröfu yfirvaldanna í erlenda ríkinu. Hann var því úrskurðaður í gæsluvarðhald, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 12. apríl klukkan 16.

Hægt er að lesa úrskurð Landsréttar í heild sinni hér. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×