Innlent

Segir skip­stjórnar­menn ekki vera að rjúfa sam­stöðu sjó­manna

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Árni segir SFS líka hafa þurft að gefa eftir af sínum kröfum.
Árni segir SFS líka hafa þurft að gefa eftir af sínum kröfum. Vísir/Steingrímur Dúi

Skipstjórnarmenn eru ekki að rjúfa samstöðu sjómanna með því að samþykkja nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta segir formaður Félags skipstjórnarmanna, en niðurstaða atkvæðagreiðslu félagsmanna lá fyrir í gær.

Í gær lágu niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýja kjarasamninga sjómanna fyrir. Öll félögin sem áttu aðild að samningnum við SFS felldu samninginn og oftast með nokkuð öruggum meirihluta. Nema eitt, það er félag skipstjórnarmanna. Þar var samningurinn samþykktur.

413 voru á kjörskrá og var kjörsókn rúmlega 83%. 190 greiddu atkvæði með samningnum eða 55,39% og 146 eða 42,57% vildu fella samninginn.

Formaður félags skipstjórnarmanna segir félagsmenn hafa sýnt atkvæðagreiðslunni mikinn áhuga.

„Það var geysilega mikill áhugi. Ég var með þrjá teams fundi þar sem ég var með um 140 félagsmenn á kynningarfundum. Ég fékk alveg að heyra mismunandi skoðanir manna á samningnum og eftir það er ég nánast búinn að vera í símanum meira og minna og að svara tölvupóstum.“

Tímalengd samningsins hefur vakið mikla athygli en hann er til heilla 10 ára. En höfðu skipstjórnarmenn engar áhyggjur af því að semja til svo langs tíma?

„Vissulega og það komu upp mismunandi raddir varðandi það en í ljósi þess að sjómenn voru án samninga frá 2011 til 2016, í fimm ár og svo aftur frá 2019 til 2023 í þrjú ár þá töldum við nú ekki mikla áhættu í því  að semja til 10 ára.“

Árni segir ekkert óeðlilegt eða óvenjulegt að skipstjórnarmenn samþykki samning sem aðrir sjómenn fella.

„Þetta gerðist 2016 líka og réttindi skipstjóra eða yfirmanna á skipum eru með öðrum hætti heldur en annarra í áhöfn. Þar af leiðandi eru kannski ólíkir áhersluþættir.“

Atvinnurekendur hafi líka gefið eftir af sínum kröfum.

„Þeir eru mjög harðir, þeir eru mjög harðir og við skulum ekki gleyma því að þeir höfðu líka uppi miklar kröfur sem þeir þurftu að gefa eftir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×