Tónlist

„Sama pæling og þegar gaurinn sem var efnilegur í þriðja flokki ákveður að fara í bumbubolta“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ormar eru tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.
Ormar eru tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum. Skjáskot/Vísir

Hljómsveitin Ormar samanstendur af Elvari, Herði og Sólrúnu Mjöll og sérhæfir sig í grugg rokki frá tíunda áratuginum. Þau eru tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum í ár. 

Nú styttist óðum í Hlustendaverðlaunin 2023 sem fara fram 17. mars næstkomandi í Háskólabíói. Nýliði ársins er meðal verðlaunaflokka og eru átta hljómsveitir og tónlistarmenn sem keppast um titilinn. Lífið á Vísi ræddi við allt tónlistarfólkið sem var tilnefnt í þessum flokki og fékk smá innsýn inn í sköpunargleði þeirra og tónlist.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan:

Klippa: Nýliðinn: Ormar

Hver eruð þið með eigin orðum?

Elvar, Hörður og Sólrún eru venjulegir Íslendingar, yfirfull af orku og mynda hljómsveitina Orma.

Hvernig mynduð þið lýsa ykkar tónlistarstíl?

Kraftur, spenna, tilfinningaríkt, grípandi, drífandi. Stíllinn þróast og mótast með tímanum, en fyrst og fremst er þetta rokk.

Hver var kveikjan að því að þið byrjuðuð í tónlist?

Það er sennilega best að svara spurningunni út frá því hvernig hljómsveitin okkar varð til. Í stuttu máli fengu Elvar og Hörður hana Sólrúnu Mjöll (úr Flott, Ceasetone og fleira) með sér í lið til að spila amerískt grugg rokk frá tíunda áratugnum, eitthvað sem þeir höfðu ekki gert saman síðan þeir voru unglingar. 

Í grunninn var þetta sama pæling og þegar gaurinn sem var efnilegur í 3. flokki í fótbolta ákveður að fara í bumbubolta með vinahópnum.

 Strax eftir fyrstu æfingu fundu þau þörf fyrir að skapa eigin tónlist og hafa ekki stoppað síðan.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna í tónlist?

Þetta er félagsskapur og það er fátt eins skemmtilegt og að búa til eitthvað úr engu með bestu vinum þínum. Við elskum að æfa, sérstaklega á daginn. 

Það er eitthvað svo fyndið að spila rokktónlist í nokkra klukkutíma á morgnana. 

En svo er auðvitað skemmtilegast að koma fram og spila fyrir fólk. Gefa út tónlist. Fá viðbrögð. Fara í stúdíó. Gefa út meira. Og sjá barnið vaxa.

En erfiðasta?

Við tókum ákvörðun að allir okkar textar yrðu að vera á íslensku. Okkur finnst það mjög skemmtilegt, en á sama tíma mun erfiðara. 

Við finnum að textarnir verða persónulegri og oft er hægt að sitja lengi yfir litlum setningum.

Tónlistarbransinn er krefjandi og til að skapa sér nafn þarf að leggja rosalega mikið inn og þú veist aldrei hvað kemur út úr því. Að stofna hljómsveit, æfa, semja lög og spila á tónleikum er skemmtilegi parturinn. Það sem er erfiðast er markaðssetningin. Hundruðir pósta, halda utan um samfélagsmiðla, fjármögnun og svo framvegis. Það getur tekið á.

Er eitthvað við tónlistarbransann sem hefur komið ykkur á óvart?

Það er gaman að hitta tónlistarfólk sem er komið lengra í bransanum, og komast að því að þau eru að klessa á sömu veggi og maður sjálfur. 

Það er einhver þægileg huggun að átta sig á því að fólk sem maður virðir og lítur upp til eru álíka miklir sauðir og maður sjálfur.

Drauma samstarfs aðili?

Þeir eru mjög margir. Okkur langar að gefa út lög með stórum nöfnum úr íslensku rokki og vonumst eftir að geta gert það á komandi plötum. 

Við eigum okkur líka þann draum að taka tónleikaferðalag um landið með goðsagnakenndum hljómsveitum eins og 200.000 Naglbítum eða Botnleðju. 

Svo væri frekar töff að gera plötu með Steve Albini og Butch Vig.

Eigið þið einhverja íslenska fyrirmynd í tónlistarheiminum?

Mjög margar. Kannski einfaldast að nefna hljómsveitir á borð við Maus, Ensími, Botnleðju, Mínus og Brain Police. En almennt bara flott tónlist með góðum texta.

Hvernig var tilfinningin að fá tilnefningu sem Nýliði ársins?

Það var frekar magnað. Við vorum alveg búin að tala um það okkar á milli hvað það væri nett að fá tilnefningu, þannig það blundaði einhver smá von í okkur. Svo þegar við fengum tilnefninguna vorum við ekkert smá hissa. Kannski tókst okkur að manifesta þetta? 

Við erum allavega fáránlega stolt af því að vera á þessum lista ásamt flottu tónlistarfólki sem eru flest eða öll að fara að gera stóra hluti í framtíðinni. 

Þetta hvetur okkur áfram til að gera meiri músík.

Tengdar fréttir

„Maður átti helst ekkert að tala um aldurinn sinn“

Tónlistarkonan og leikkonan Silja Rós er að eigin sögn orkumikil tilfinningavera sem lifir fyrir að skapa list. Það kom snemma í ljós hvert stefndi þar sem hún var syngjandi allan daginn sem barn og henni líður hvergi betur en á sviðinu. Silja Rós er tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.

„Algjör draumur að geta unnið við það sem ég elska“

Tónlistarkonan Una Torfadóttir ber marga hatta og segist fyrst og fremst vera stemningskona. Hún hefur verið í kringum tónlist allt sitt líf og segir algjöran draum að geta nú unnið við það sem hún elskar. Una Torfa er tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.

„Það er ekkert plan B“

Rapparinn Daniil skaust upp á stjörnuhimininn í fyrra en hann byrjaði í tónlist eftir að vinur hans fékk Macbook tölvu þegar þeir voru yngri. Honum finnst allt skemmtilegt við tónlistarbransann og stefnir bara lengra. Daniil er tilnefndur sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.

Brotlenti svolítið eftir Söngvakeppnina

Tónlistarmaðurinn Stefán Óli vakti athygli þegar hann tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í fyrra. Hann elskar að flytja sína eigin tónlist upp á sviði og stefnir á að gefa út plötu á komandi tímum. Stefán Óli er tilnefndur sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.

„Maður er eins og guð í smá stund“

Tónlistarkonan og leikkonan Elín Hall skaust fyrst fram á sjónarsviðið árið 2015 þegar hún tók þátt í Söngvakeppninni aðeins sextán ára gömul. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá hjá Elínu, sem leikur meðal annars í sýningunni Níu líf í Borgarleikhúsinu og hefur gefið út sóló plötu. Elín Hall er tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.

„Ekkert erfitt við tónlist nema að fá pening fyrir hana“

Hljómsveitin Kvikindi samanstendur af Brynhildi Karlsdóttur, Friðriki Margrétar-Guðmundssyni og Valgeiri Skorra Vernharðssyni. Með tónlist sinni leggja þau upp úr því að koma fólki til að dansa í gegnum tárin, finna stelpulegu hliðina og elska meira en tónlistin hefur alltaf verið hluti af þeirra lífi. Kvikindi eru tilnefnd sem Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.