Innlent

Grunuð um fjöldann allan af líkams­á­rásum, þjófnaði og rán

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Flest brotanna framdi konan á Akureyri.
Flest brotanna framdi konan á Akureyri. vísir/vilhelm

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir konu sem grunuð er um fjölda hegningalagabrota á árunum 2022 og 2023. Meðal þess eru ítrekaðar líkamsárásir, þjófnaðir, húsbrot og rán.

Úrskurður Landsréttar féll í gær en þar segir að alls séu 25 mál konunnar til rannsóknar hjá lögreglu og ákæruvaldi. 

„Sakarefni málanna eru ítrekaðir þjófnaðir, líkamsárásir, nytjastuldur og skjalafals, gripdeild, eignaspjöll, fjársvik, rán, frelsissvipting, fíkniefnalagabrot og ítrekuð umferðarlagabrot,“ segir í úrskurðinum. Eru 14 mál til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, níu mál hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og tvö mál hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi. 

Samkvæmt sakavottorði nær sakaferill hennar aftur til ársins 2012 en hún hefur sex sinnum hlotið refsidóm fyrir svipuð brot. Var fallist á mat lögreglustjóra að hún væri líkleg til að halda brotum áfram á meðan rannsókn er ólokið.

Í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra er brotum konunnar lýst nánar. Þar kemur meðal annars fram að konan hafi ráðist á sambýlismann sinn með hníf og að hann hafi verið blóðugur á enni og undir hægra auga eftir atlöguna. 

Þá hafi hún brotist inn í hús í ágúst á síðast ári og neytt brotaþola til að taka út peninga af debetkorti. 

Auk þess er hún grunuð um að hafa í fjölmörg skipti stolið bifreið, í eitt skipti farið upp í bifreiðina þegar eigandi hafi verið var að setja vörur í bifreiðina.  

Enn fremur er hún grunuð um fjölmörg þjófnaðarbrot, gripdeild og skjalafals. 

Úrskurður Landsréttar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×