Innlent

„Ef að sam­fé­lagið fer að stöðvast þá verða stjórn­völd að grípa inn í“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir báða deiluaðila nánast hafa kallað eftir því að það verði höggvið á hnútinn annars staðar. 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir báða deiluaðila nánast hafa kallað eftir því að það verði höggvið á hnútinn annars staðar.  Vísir/Vilhelm

Formaður Miðflokksins segir mikilvægt að ríkisstjórnin sé undirbúin fyrir það að hún gæti þurft að höggva á hnútinn í kjaradeilunni. Miðlunartillaga væri ein lausn og ríkisstjórnin þurfi í hið minnsta að vera tilbúin enda geti tekið tíma að bregðast við. Þingið og ríkisstjórnin geti ekki litið fram hjá vandanum þegar allt er að sigla í strand.

Deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hefur verið í algjörum hnút í nokkurn tíma en einhverjir hafa kallað eftir því að stjórnvöld stígi inn í með einhverjum hætti. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það ekki koma til greina á þessum tímapunkti en staðan sé metin dag frá degi. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er meðal þeirra sem kallar eftir aðkomu stjórnvalda en í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir hann ljóst að deilan muni ekki leysast haldi viðræður áfram með óbreyttum hætti. Forsendur Samtaka atvinnulífsins og Eflingar séu þær sömu og í upphafi.

„Hvorugt virðist geta gefið mikið eftir. Annars vegar eru það Samtök atvinnulífsins sem eru búin að semja við þorra vinnumarkaðarins og vilja ekki setja það allt í uppnám, og hins vegar Efling sem er auðvitað búin að fara í mikinn slag, stofna miklu til og telja sig þurfa að ná annars konar samningum,“ segir Sigmundur.

Þá segir hann formann Eflingar jafnvel hafa sagt að deilan myndi leysast annars staðar en við samningsborðið. Forsendur beggja deiluaðila fyrir því að samningar náist hafi ekki breyst frá því að viðræður hófust og ekkert gengið hingað til. 

Ekki hægt að bíða bara og sjá hvað verður

Þó tónninn hafi verið örlítið jákvæðari í gær, þegar framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður Eflingar samþykktu að fresta verkföllum og verkbanni boði ríkissáttasemjari til fundar, þá hafi ekkert breyst í viðræðunum sjálfum. Því þurfi stjórnvöld að grípa inn í með einhverjum hætti.

„Það er alla vega tímabært að hefja undirbúning og það að undirbúningur sé hafinn getur líka aðeins ýtt á eftir samningum. Ég skil auðvitað stjórnvöld mjög vel að vilja forðast það eins lengi og hægt er að grípa inn í. Það er eðlileg og skynsamleg afstaða en þegar báðir deiluaðilar virðast vera að bíða eftir því að það verði höggvið á hnútinn annars staðar þá geta stjórnvöld ekki lengur falið sig fyrir vandanum,“ segir Sigmundur.

Ein lausn væri að leyfa félagsmönnum bæði Eflingar og Samtaka atvinnulífsins að greiða atkvæði um miðlunartillögu. Mögulega sé það lausn sem hentar öllum.

„En í öllu falli þá geta stjórnvöld ekki verið í þeirri stöðu að bíða og sjá og ætla svo að bregðast við, jafnvel þegar það er orðið seint, tjónið orðið mikið eða enn erfiðara að vinda ofan af þessum vanda,“ segir Sigmundur. „Ef að samfélagið fer að stöðvast hérna þá verða stjórnvöld að grípa inn í.“

Fullyrðingar um skyldur deiluaðila til að ná samningum séu gildar en skili litlu ef þau ná ekki saman og allt samfélagið stöðvast vegna verkfalla og verkbanns. Þá sé komið að stjórnvöldum að leggja sitt af mörkum. Hann og aðrir þingmenn muni sjálfir meta stöðuna en fyrst og fremst hvetur hann ríkisstjórnina til að gera ráðstafanir og vera tilbúin.

„Það getur tekið tíma að bregðast við og menn kannski bregðast verr við en ella ef þeir hafa ekki nýtt tímann til undirbúnings. Svo verðum við bara að fylgjast með og meta hvernig þetta þróast. En þegar báðir deiluaðilar eru nánast búnir að kalla eftir því að það verði höggvið á hnútinn annars staðar og hér er allt að sigla í strand, þá getur þingið ekki leyft sér að líta fram hjá vandanum lengur,“ segir Sigmundur.


Tengdar fréttir

„Ég held að það sendi boltann til lög­gjafans“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir túlkun Landsréttar á vinnulöggjöf í tengslum við miðlunartillögu ríkissáttasemjara nýja af nálinni. Hún segir brýnt að endurskoða löggjöf og eyða óvissu.

Sólveig Anna gæti fallist á nýja miðlunartillögu

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og formaður Eflingar eru sammála um að tíminn til að ná samningum áður en Alþingi setji lög á deilu þeirra sé ekki langur og kostirnir ekki margir. Formaður Eflingar væri tilbúinn að setja rétt fram borna miðlunartillögu í dóm félagsmanna og bæði eru til í að ýmist aflýsa eða fresta verkföllum og verkbanni, boði ríkissáttasemjari þau til sáttafundar.

„Þori ekki að í­­mynda mér hvernig á­standið verður eftir helgi”

Bensínbirgðir tæmast hratt og forsvarsmenn helstu stöðva sjá fram á að birgðir af díselolíu verði senn á þrotum. Framkvæmdastjóri N1 segir að stöðvarnar munu loka hver á fætur annarri á næstu dögum og hefur áhyggjur af ástandinu sem kann að skapast eftir helgi.

Segir hægt að ná samningi á einum degi væri vilji til staðar

Félagsmenn Eflingar efndu til mótmælagöngu á öðrum tímanum í dag og kröfðust þess við Stjórnarráðshúsið og Alþingi að ráðherrar og þingmenn kæmu og spjölluðu við þá. Lítil viðbrögð var að fá á báðum stöðum. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari fréttastofu, fylgdi félagsmönnum Eflingar eftir í miðbænum. Formaður Eflingar segir að hægt væri að ganga frá samningi á einum degi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×