Innlent

„Sú af­sökunar­beiðni mun aldrei koma af vörum mínum“

Máni Snær Þorláksson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Arnar

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir fordæmalausa stöðu vera komna upp á íslenskum vinnumarkaði. Hann ætlar ekki að biðja formann Eflingar afsökunar þrátt fyrir að hún hafi krafist þess í dag.

Fyrr í dag féll úrskurður í Landsrétti sem kvað á um að Eflingu bæri ekki skylda til að afhenda kjörskrá sína. Rætt var við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, í kvöldfréttum Stöðvar 2 um vendingar dagsins. Hann segir túlkun vinnulöggjafarinnar vera í miklu uppnámi eftir úrskurðinn en að mikilvægt sé að halda því til haga um hvað verið var að úrskurða.

„Eftir sem áður er gild miðlunartillaga komin fram sem ríkissáttasemjari lagði fram. Úrskurðurinn sem var kveðinn upp í Landsrétti í dag kveður hins vegar á um að ríkissáttasemjara er ekki heimilt að krefjast með beinni aðfarargerð aðgangs að þessari sömu kjörskrá. Þannig nú er komin upp sú skrýtna staða að Efling, áfram í þrákelkni sinni, neitar að afhenda kjörskrá, neitar að taka þátt í að atkvæðagreiðslan geti farið fram um miðlunartillöguna.

En eftir sem áður er miðlunartillagan gild og báðum aðilum, það er að segja Eflingu og Samtökum atvinnulífsins, ber lögum samkvæmt að láta fara fram atkvæðagreiðslu um þessa miðlunartillögu. Þannig ég segi við þig að það er komin upp fordæmalaus staða á íslenskum vinnumarkaði.“

Klippa: Biður Sólveigu Önnu ekki afsökunar

Halldór veltir því fyrir sér hvaða afleiðingar úrskurður Landsréttar geti haft á miðlunartillögur ríkissáttasemjara í framtíðinni. 

„Það er hægt að orða það með þeim hætti að það er í raun öðrum aðilanum, eða báðum eftir atvikum, í sjálfsvald sett hvort þau taki þátt við framkvæmd atkvæðagreiðslu miðlunartillögu,“ segir hann.

„Þá erum við komin í þá stöðu að aðilar hafa sjálfdæmi um það hvort þau hlíta lögum í landinu. Sumum finnst það kannski góð hugmynd, mér finnst hún afleit, og við þessa stöðu verður illa unað.“

Fordæmalaus staða

Úrskurði Landsréttar verður ekki skotið til Hæstaréttar vegna samkomulags sem Efling og ríkissáttasemjari gerðu áður en úrskurðurinn var kveðinn upp. Halldór segir að þar séu um að ræða samkomulag sem SA eiga enga aðild að.

Aðalatriðið sé hins vegar það að héraðsdómur úrskurðaði um lögmæti miðlunartillögunar, sá úrskurður standi enn óhaggaður. „En eftir stendur þetta: Efling neitar að taka þátt í samstarfi um framkvæmd atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna,“ segir Halldór.

„Þá er komin upp sú fordæmalausa staða að á meðan þau tefja þessa atkvæðagreiðslu eru þau að beita verkfallsvopninu grimmt. Núna gegn Fosshótelum og Íslandshótelum en strax í þessari viku á miðvikudag gagnvart fleiri hótelkeðjum og Olíudreifingu og Samskipum. Þannig í raun, eins og við nefndum fyrir nokkrum vikum síðan, er Efling með fordæmalausum hætti að hagnast og styrkja stöðu sína með því að beita ólögmætum aðgerðum.“

Sannfærður um að það takist að leysa úr deilunni

„Koma tímar, koma ráð og úrræðagott fólk finnur alltaf lausnir á öllum vandamálum,“ segir Halldór þegar hann er spurður hvort það sé hægt að gera eitthvað í þessari stöðu. „Aðalatriðið er að anda með nefinu og sýna stillingu.“

Hann er sannfærður að það takist að leysa úr þessari deilu, vonandi áður en langt um líður:

„Vegna þess að kostnaðurinn fyrir samfélagið er geigvænlegur, hér verður allt komið í hnút á næstu dögum, og ég spái því að samfélagið eins og við þekkjum það verði komið í algjöran hnút um eða eftir helgi.“

Ætlar ekki að biðja Sólveigu afsökunar

Þegar úrskurður Landsréttar var kveðinn upp fyrr í dag birti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún fagnaði niðurstöðunni. Í færslunni sagði hún Halldór skulda sér afsökunarbeiðni.

„Hann hefur stigið ítrekað fram í fjölmiðlum og ráðist að heiðri mínum með grófum og óforskömmuðum hætti. Hann skuldar mér afsökunarbeiðni. Ég býst svo sem ekki við því að hann færi mér hana. Ef hann væri sómakær maður myndi hann sennilega gera það,“ sagði hún svo í samtali við fréttastofu um málið.

Ljóst er að Sólveig mun ekki fá umrædda afsökunarbeiðni frá Halldóri. Hann segir Sólveigu sannarlega brjóta lög með því að neita að hlíta dómi héraðsdóms. Því sér hann enga ástæðu til að biðja hana afsökunar.

„Sú afsökunarbeiðni mun aldrei koma af vörum mínum“


Tengdar fréttir

Væri lág­kúru­legt ef sátta­semjari færi með málið til Hæsta­réttar

Formaður Eflingar er í skýjunum með sigur í deilu sinni við ríkissáttasemjara sem krafðist að fá félagatal stéttarfélagsins afhent. Hún trúir ekki öðru en að sáttasemjari stígi loks til hliðar svo hægt verði að setjast að samningaborðinu og semja um Eflingarsamning fyrir Eflingarfólk.

Aðalsteinn vill stíga til hliðar í deilu SA og Eflingar

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefur lagt til við félags- og vinnumarkaðsráðherra að hann stígi til hliðar sem sáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Hann segir persónuna alltaf bera að víkja fyrir málefninu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×