Innlent

Óvissustigi lýst yfir

Árni Sæberg skrifar
Víðir Reynisson er yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs hjá ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson er yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs hjá ríkislögreglustjóra. Vísir/Vilhelm

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórana á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna í fyrrgreindum umdæmum, vegna veðurs sem er framundan.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að appelsínugul veðurviðvörun taki gildi klukkan 11 í fyrramálið Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. 

„Vegfarendur eru beðnir um að vera ekki á ferðinni að óþörfu á því svæði þar sem veðrið er verst. Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur og líkur á foktjóni eru verulegar,“ segir í tilkynningu.

Samráðsfundur í fyrramálið

Í tilkynningu segir að búið sé að boða til samráðsfundar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra klukkan 11 í fyrramálið þar sem farið verður yfir stöðuna og viðbragð á þeim svæðum þar sem veðurspá er slæm. 

Einnig hafi verið ákveðið að virkja samhæfingarstöð almannavarna klukkan 10 í fyrramálið.

Nauðsynlegt að festa lausamuni

Í tilkynningunni segir að samkvæmt spá Veðurstofu Íslands sé von á sunnan stormi og miklu roki. Búast megi við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum.

„Varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni og nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón. Fólki [er] bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám,“ segir í tilkynningunni. 

Að lokum er bent á að á vefnum umferdin.is sé hægt að fylgjast með rauntímaupplýsingum um færð á vegum og á vedur.is sé eins og alltaf hægt að fylgjast með veðrinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.