Innlent

Stóryrtur Breki lagði smálánafyrirtækin í annarri lotu

Árni Sæberg skrifar
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. Stöð 2/Arnar

Landsréttur hefur sýknað Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, vegna ummæla sem hann lét falla um starfsemi smálánafyrirtækisins Ecommerce. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði í september 2021 dæmt fjögur ummæli Breka, um að smálánin og innheimta þeirra væri ólögleg, dauð og ómerk.

Ummælin, sem smálánafyrirtækið stefndi Breka og Neytendasamtökunum fyrir, voru sett fram í tölvupósti Breka til tveggja fyrirtækja sem veittu Ecommerce greiðslumiðlunarþjónustu og fólu í sér fullyrðingar um að þjónusta fyrirtækisins hefði verið úrskurðuð ólögmæt hér á landi.

Í dómi sínum frá 27. september árið 2021 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur eftirfarandi ummæli Breka dauð og ómerk, með vísan til þess að þau væru röng og að Breki hafi ekki sett þau fram í góðri trú um sannleiksgildi þeirra:

  1. „the loans have been deemed illegal in Iceland.“
  2. „whose only operation is illegal predatory lending.“
  3. „These loans have been ruled illegal in Iceland by both courts and the Consumer surveillance agency.“
  4. „illegal transfers.“

Í dómi Landsréttar segir meðal annars að ummælin rúmist innan þess frelsis sem Breki nýtur samkvæmt tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og tíundu grein mannréttindasáttmála Evrópu. Það frelsi verði að telja nokkuð rúmt í tilviki Breka og Neytendasamtakanna í ljósi hlutverks þeirra og að það vegi þyngra en réttur Ecommerce til æruverndar.

Þá sé Breki ólöglærður og þrátt fyrir að ummæli hans hafi ekki verið lögfræðilega nákvæm hafi þau ekki verið úr lausu lofti gripin og lagt hafi verið til grundvallar að Breki hefði, í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir lágu, viðhaft þau í góðri trú um réttmæti þeirra og verið heimilt að halda þeim fram

Ecommerce var gert að greiða eina milljón króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Dóm Landsréttar má lesa í heild sinni hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.