Innlent

Efling hafnar lög­mæti miðlunar­til­lögunnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Vísir/Ívar

Efling hafnar lögmæti þeirrar miðlunartillögu sem ríkisáttasemjari hefur lagt fram í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Stéttarfélagið telur miðlunartillöguna fela það í sér að afstöðu SA sé þröngvað upp á Eflingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu Eflingar til fjölmiðla eftir að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari, boðaði til blaðamannafundar, í dag þar sem hann kynnti miðlunartillögu í kjaradeilunni.

Miðlunatillagan felur það efnislega í sér að tilboð Samtaka atvinnulífsins til Eflingar verði lagt í dóm allra félagsmanna Eflingar sem umræddir kjarasamningar ná til. Það er að félagsmenn Eflingar fá sömu launahækkun og samið var um við Starfsgreinasambandið og að afturvirkni samningannna nái til 1. nóvember síðastliðins.

„Efling – stéttarfélag hafnar lögmæti miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í morgun. Tillagan var lögð fram með óeðlilegum flýti og án samráðs við Eflingu. Ríkissáttasemjari hefur að mati Eflingar brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur um samráð við deiluaðila, sem ber að viðhafa áður en miðlunartillaga er lögð fram, segir í tilkynningu Eflingar.

Þar segir einnig að með henni hafi ríkissáttasemjari farið gegn þeim venjum sem tíðkist í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Umrædd miðlunartillögu fari ekki bil beggja.

„Hin svokallaða miðlunartillaga felur í sér að afstöðu annars aðilans er þröngvað upp á hinn. Tillagan er algjörlega samhljóða síðasta tilboði Samtaka atvinnulífsins. Ekkert tillit var tekið til sjónarmiða Eflingar í tillögunni. Efling fordæmir þessi vinnubrögð, segir í tilkynningu Eflingar.

Fram kom í máli Aðalsteins að tillagan feli það í sér að greidd verði atkvæði um miðlunartillöguna frá og með hádegi á laugardaginn og henni ljúki á þriðjudaginn næstkomandi klukkan 17.

Tilkynning Eflingar

Efling – stéttarfélag hafnar lögmæti miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í morgun. Tillagan var lögð fram með óeðlilegum flýti og án samráðs við Eflingu. Ríkissáttasemjari hefur að mati Eflingar brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur um samráð við deiluaðila, sem ber að viðhafa áður en miðlunartillaga er lögð fram.

Auk þess gengur miðlunartillaga ríkissáttasemjara gegn öllum venjum í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, þar sem tíðkast hefur að miðlunartillögur fari bil beggja. Hin svokallaða miðlunartillaga felur í sér að afstöðu annars aðilans er þröngvað upp á hinn. Tillagan er algjörlega samhljóða síðasta tilboði Samtaka atvinnulífsins. Ekkert tillit var tekið til sjónarmiða Eflingar í tillögunni. Efling fordæmir þessi vinnubrögð.

Á blaðamannafundi í dag lét ríkissáttasemjari þess ógetið að til að miðlunartillögu sé hafnað skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nægir ekki að henni sé hafnað af meirihluta greiddra atkvæða. Mótatkvæði þurfa auk þess að vera fjórðungur af öllum á kjörskrá. Þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslu er ólýðræðisleg og íþyngjandi, sem setur enn frekari spurningarmerki við það samráðsleysi sem embætti ríkissáttasemjara sýnir gagnvart Eflingu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.