Innlent

Þórarinn segist hafa mátt þola hrotta­legt of­beldi kennslukonu

Jakob Bjarnar skrifar
Þórarinn Ægisson segir að hann hafi á aldrinum 7-11 ára aldurs mátt sæta ofbeldi og fantaskap af hálfu kennslukonunnar. Hún hafi tekið sig og nokkra drengi fyrir sem allir flosnuðu upp frá námi og einn hefur fyrirfarið sér.
Þórarinn Ægisson segir að hann hafi á aldrinum 7-11 ára aldurs mátt sæta ofbeldi og fantaskap af hálfu kennslukonunnar. Hún hafi tekið sig og nokkra drengi fyrir sem allir flosnuðu upp frá námi og einn hefur fyrirfarið sér. vísir/vilhelm

Þórarinn Ævarsson athafnamaður opnar sig um hrottalegt ofbeldi sem hann segir umsjónarkennara sinn í barnaskóla hafa beitt sig og fleiri bekkjarfélaga sína í barnaskóla.

Þórarinn segir ofbeldið hafa verið yfirgengilegt og allir þeir sem urðu fyrir því flosnuðu upp úr námi og einn úr hópnum, sem mátti sæta þessu, fyrirfór sér.

Þórarinn var gestur Sölva Tryggvasonar, í nýlegu hlaðvarpi hans og þar greinir hann frá þessu. Þórarinn vakti mikla athygli fyrir vaska framgöngu í ýmsum efnum þegar hann var framkvæmdastjóri IKEA. Hann stofnaði þá pítsa-veitingastaðakeðjuna Spaðann sem gekk ekki upp. Að undanförnu hefur hann stundað mikla sjálfsvinnu með hjálp hugvíkkandi efna og greindi meðal annars frá því í ítarlegu viðtali við Vísi sem vakti gríðarlega mikla athygli.

Þessi sjálfsvinna hefur leitt Þórarinn á þær slóðir að gera upp eitt og annað sem snýr að barnæsku hans. Og þar rakst hann á mikinn vegg, alvarlegt ofbeldi sem hann varð fyrir af hálfu umsjónarkennara síns til margra ára í barnaskóla. Ofbeldið var viðvarandi og náði yfir nokkurra ára skeið. Hann hefur rætt þetta við bekkjarfélaga sína sem máttu þola það hið sama af hálfu kennarans.

Þórarinn Ægisson: „Hún tók okkur iðulega einn í einu fram á gang, þar sem hún tók okkur upp á hárinu, sparkaði fast í okkur með tréklossum og fleira og fleira þegar enginn sá til. Hún beitti okkur í raun sadískum fantaskap.“vísir/vilhelm

„Ég var mjög góður nemandi og var orðinn fluglæs 5-6 ára gamall og þurfti aldrei að læra heima. En frá 7-11 ára aldurs var ég með umsjónarkennara sem þoldi ekki mig og nokkra aðra stráka í bekknum og beitti okkur hrottalegu ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu. Þetta var kona, sem virtist ekki þola mig og nokkra aðra stráka,“ segir Þórarinn í samtali við Sölva. 

Sadískur fantaskapur kennslukonunnar

Og heldur áfram að lýsa því hvað fólst í þessu ofbeldi:

„Hún tók okkur iðulega einn í einu fram á gang, þar sem hún tók okkur upp á hárinu, sparkaði fast í okkur með tréklossum og fleira og fleira þegar enginn sá til. Hún beitti okkur í raun sadískum fantaskap.“

Þórarinn segir að þegar hann leggi þetta niður fyrir sig nú sé eins og kennarinn hafi valið úr til að níðast á drengi sem voru með frekar veikt bakland.

„Kannski vorum við með einhvern snert af ADHD, en við vorum bara venjulegir strákar, en hún þoldi ekki hvað við þurftum lítið á henni að halda. Einn af okkur, mjög góður vinur minn, Davíð Elvar Davíðsson, var áberandi klárasti strákurinn í bekknum og í raun öllum árganginum. 

Hann bjó hjá frænku sinni og hafði ekkert bakland og hún tók hann sérstaklega fyrir og hann hætti bara í skóla í níunda bekk þó að hann væri afburðanemandi. Ég og hann vorum oft í kappi með krossapróf eða önnur verkefni og vorum iðulega mjög fljótir að klára og alltaf með níur eða tíur í einkunn. Þannig að það var engin ástæða fyrir því að taka okkur sérstaklega fyrir og auðvitað aldrei neitt sem réttlætir að beita börn líkamlegu ofbeldi.“

Sex drengir máttu þola þennan fantaskap

Þórarinn segist enn fá í magann við að ræða þetta tímabil og það hafi tekið hann talsverðan tíma að átta sig á þessu til fulls:

„Ég byrgði þetta inni í mörg ár og var með mikla skömm út af þessu og sagði aldrei neinum frá. Ég hélt á tímabili að ég hefði gert mér upp þessar minningar, en svo fór ég að bera saman bækur mínar við þessa stráka og þeir mundu allir vel eftir þessu og þetta hafði mikil áhrif og afleiðingar hjá okkur öllum. Við flosnuðum allir upp úr námi og það er frekar augljóst að þetta grófa ofbeldi í mörg ár hafði mikið um það að segja.“

Þórarinn segir að allt traust til þessarar manneskju sem hann nefnir ekki á nafn hafi horfið.

„Traust okkar var brostið gagnvart þessari manneskju sem var með völd yfir okkur og var aðalkennarinn okkar í öll þessi ár. Hún fór í annan skóla þegar við vorum komnir í 12 ára bekk. 

Þórarinn segir mikla skömm búa í drengjum og karlmönnum og það sé mikið mein.vísir/vilhelm

Ég veit fyrir víst um sex sem urðum fyrir þessu mikla ofbeldi, einn af okkur fyrirfór sér, en hinir muna allir vel eftir þessu. Ef að þú gerir þetta í fyrstu vinnunni þinni sem útskrifaður kennari við helminginn af strákunum í bekknum er ekki ólíklegt að þetta ofbeldi hafi haldið áfram annars staðar. Ég er búinn að vera að tala við þessa vini mína undanfarið og hefði ekki ákveðið að segja þetta opinberlega nema eftir að hafa rætt við þá. Þeir muna þetta allir og þetta situr enn í þeim öllum og þeir bakka mig upp í því að segja frá þessu núna.”

Gríðarleg viðbrögð við viðtalinu á Vísi

Eins og áður sagði var Þórarinn í veigamiklu viðtali á Vísi fyrir skömmu en líf hans hefur tekið miklum umskiptum, U-beygju í raun, á undanförnu ári eða svo. Hann segist laus við skömmina og þunglyndið sem hann opnaði sig um.

„Ég átti stærstu gerð af Landcruiser og sportbíl með vængjahurðum, einbýlishús á Siglufirði og stóran spíttbát. Ég á ekkert af þessu lengur og er búinn að þurfa að losa mig við þetta allt saman. Ég er búinn að skrúfa mig hressilega niður, enda felst lífsfyllingin ekki í efnislegum eigum,“ segir Þórarinn Sölva.

„Ég væri jafnvel til í að byrja að baka bara aftur, enda er ég menntaður bakarameistari. Ég þarf ekki eins mikið og ég þurfti, sem er bara jákvætt. Ég er búinn að vera að vinna í sjálfum mér alveg síðan síðasta vor og líf mitt hefur breyst mikið. En ég veit að þetta var mikilvægasta verkefnið í lífi mínu. Að komast út úr þunglyndinu og lyfjafíkninni, þannig að ég gæti verið til staðar fyrir konuna mína og börnin mín, sem ég elska svo ofboðslega mikið.”

Þórarinn segir það siðferðilega skyldu sína, þó það taki á, opna sig um reynslu sína.

„Þetta er búið að vera algjörlega fríkað síðan þetta Vísis-viðtal kom út og gríðarlega mikil viðbrögð. Samt er ég ekki á Facebook eða neinum samfélagsmiðli og heldur ekki í símaskránni, svo að það þarf að hafa talsvert fyrir því að ná á mig. Ég er svolítið „anal“ á því að vera ekki á neinum samfélagsmiðli, af því að ef það er ekkert verð á vörunni, þá ert þú líklega sjálfur varan. Líklega er verið að selja aðgang að þér. Þó að ég hafi lagt nær öll mín leyndarmál á borðið núna er ég í grunninn mjög prívat maður.“

Mikill skömm sem býr í karlmönnum

Þórarinn segist hafa í gegnum tíðina verið talsvert í fjölmiðlum en hafi hins vegar aldrei áður talað um sín persónulegu mál opinberlega. 

„En ég vissi einhvern veginn að ég gæti líklega hjálpað einhverjum með því að opna mig, af því að ég vissi að ég væri ekki einn á þeim stað sem ég var á. Það er mjög mikið af fólki að glíma við stanslausa verki og enn fleiri að glíma við alvarlegt þunglyndi eins og ég var fastur í."

Þórarinn segist hafa fengið það rækilega staðfest að viðtalið hafi verið mikilvægt miðað við allan þann fjölda sem hafi sett sig í samband við hann.

,,Ég held að ég tali fyrir hönd margra karlmanna þegar ég segi að við erum upp til hópa með mikla skömm innra með okkur, bara fyrir það eitt að vera karlmenn. Margt af þessu tengist kynvitund okkar, kynhvöt og annað þess háttar,” segir Þórarinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×