Innlent

Net­þrjótar stálu upp­lýsingum um alla nem­endur Há­skólans á Akur­eyri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Brotist var inn í tölvukerfi Háskólans á Akureyri og persónuupplýsingum um nemendur, kennara og annað starfsfólk stolið.
Brotist var inn í tölvukerfi Háskólans á Akureyri og persónuupplýsingum um nemendur, kennara og annað starfsfólk stolið. Háskólinn á Akureyri

Netþrjótar hafa náð að komast yfir upplýsingar um alla nemendur, kennara og annað starfsfólk við Háskólann á Akureyri (HA), þar á meðal lykilorð, kennitölur og farsímanúmer. Verið er að rannsaka málið og búið er að auka öryggisstig á tölvukerfum skólans. 

Tilkynning um mögulega árás barst skólanum klukkan 16:50 í gær. Cert-IS, netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, tilkynntu þá að óprúttnir aðilar hefðu náð fótfestu á netþjóni hjá Háskólanum á Akureyri.

Í tilkynningu á vef háskólans segir að viðbragðsaðilar hafi strax verið ræstir út og rannsókn sett af stað ásamt aðgerðum til að reyna að takmarka skaðann. Rannsóknin leiddi í ljós að mennirnir sem brutust inn í kerfið hefðu náð að afrita upplýsingar um alla notendur HA, þar með talið notendanöfnum, lykilorðum, kennitölum og farsímanúmerum. 

Nemendur skólans eru hvattir til þess að skipta um lykilorð á tölvukerfum HA sem fyrst. Þá er fólk beðið um að nota frekar auðkenningarforrit í staðinn fyrir SMS-leiðina við innskráningu í kerfið. 

„Þá vill Kerfisstjórn KHA notendum sérstaklega á að vera varir um sig þegar þeim berast SMS og ýta ekki á hlekki sem í þeim eru og ekki gefa öðrum aðilum upp númerin í þeim heldur stimpla þau sjálf inn til innskráningar í þeim tilfellum sem þið hafið óskað eftir því,“ segir í tilkynningunni. 

Skólinn er enn að rannsaka málið og hefur tilkynnt þjófnaðinn til Persónuverndar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×