Innlent

Yfir­gnæfandi meiri­hluti blaða­manna sam­þykkti kjara­samning

Atli Ísleifsson skrifar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Rúmlega 98 prósent félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands greiddu atkvæði með samþykkt nýs skammtímakjarasamnings félagsins við Samtök atvinnulífsins. Af þeim sem voru á kjörskrá hjá Félagi fréttamanna greiddu rúmlega 96 prósent atkvæði með samþykkt samningsins.

Atkvæðagreiðslu um samning Blaðamannafélagsins við Samtök atvinnulífsins, ásamt framlengdum samningi Félags fréttamanna við SA/RÚV ohf lauk á hádegi og voru niðurstöður atkvæðagreiðslunnar birtar á vef Blaðamannafélagsins nokkru síðar. 

Þar kemur fram að alls hafi 124 greitt atkvæði um samning BÍ við SA, 122 með og tveir á móti, það er rúmlega 98 prósent samþykktu. Alls voru 397 á kjörskrá.

„Af þeim 49 sem voru á kjörskrá Félags fréttamanna greiddu 29 atkvæði; 28 með en 1 á móti. Það samsvarar því að 96,5% þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn.

Niðurstöðurnar hafa verið tilkynntar viðsemjendum BÍ hjá Samtökum atvinnulífsins og til Ríkissáttasemjara, sem heldur utan um gagnagrunn allra kjarasamninga. Með hinu formlega samþykki samninganna taka þeir gildi. Þeir eru afturvirkir til 1. nóvember 2022 og gilda út janúar 2024. Uppsöfnuð launahækkun þriggja mánaða – nóvember, desember og janúar – ætti því að koma til útborgunar til félagsmanna um næstu mánaðamót.

Kjarasamningar við viðsemjendur BÍ sem standa utan Samtaka atvinnulífsins eru flestir frágengnir. Greidd verða atkvæði um þá inni á hverjum vinnustað sem um ræðir,“ segir á vef Blaðamannafélagsins. 

Samningurinn var kynntur félagsmönnum í síðustu á þeim vinnustöðum sem SA semja fyrir; Ríkisútvarpið, Árvakur og Sýn; og svo borinn undir atkvæði. 

Einnig var samið um það að dagskrárgerðarfólk á RÚV, sem séu félagar í BÍ fengi sömu grunnhækkanir, einnig afturvirkar til 1. nóvember 2022.

Vísir er í eigu Sýnar


Tengdar fréttir

Blaða­menn gera skamm­tíma­samning

Blaðamannafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir skammtímakjarasamning í dag. Samningurinn er samhljóða þeim sem undirritaðir hafa verið á almennum markaði undanfarnar vikur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×