Innlent

Vill fjöl­breyttari starf­semi í at­vinnu­hús­næði á Hlíðar­enda

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Helgi Áss Grétarsson segir óhagkvæmt að starfsemin sé svona takmörkuð
Helgi Áss Grétarsson segir óhagkvæmt að starfsemin sé svona takmörkuð Vísir/Arnar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir nauðsynlegt að endurhugsa skipulag í nýjum hverfum og búa til hvata svo atvinnurekendur vilji hefja þar starfsemi. Óeðlilegt sé til dæmis að nærri allt atvinnuhúsnæði í nýju Hlíðarendahverfi standi enn tómt.

Um tvö ár eru liðin síðan fyrstu nýbyggingarnar í nýju Hlíðarendahverfi urðu tilbúnar til að flutt yrði þangað inn en enn er mikil uppbygging í hverfinu. Á jarðhæðum í nýju húsunum er víðast gert ráð fyrir atvinnustarfsemi en margt slíkt húsnæði stendur enn tómt.

Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði í dag fram tillögu á fundi borgarstjórnar um fjölbreyttari notkun húsnæðisins.

„Ég vil gjarnan að það fæðist líf á jarðhæðum í hverfinu, þar sem er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi,“ segir Helgi.

„Það má mögulega líka hugsa sér hvort Reykjavíkurborg gæti verið með starfsemi á þessum stað með einhverjum hætti og jafnvel hvort sé hægt að vera með reglu til að hafa efnahagslegan hvata svo þessi starfsemi geti átt sér stað.“

Skoða þurfi hvrot raunhæft sé að gera ráð fyrir atvinnuhúsnæði á þessum stöðum þegar á sama tíma er gert ráð fyrir að bara gangandi vegfarendur sæki sér þjónustuna.

„Þetta varðar ekki bara Hlíðarendahverfið. Þetta varðar ýmsa aðra byggingarreiti þar sem er gert ráð fyrir svo fáum bílastæðum og mikilli íbúðabyggð og það vantar tengingu við hagkerfið og hvort sé einhver eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði á jarðhæð,“ segir Helgi.

„Það er erfitt að sjá hvenær muni blómstra þarna atvinustarfsemi með þeim skilyrðum sem eru núna í gildi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×